Fara í efni

Fullveldi Íslands í brennidepli

Nemendur í VMA minnast 100 ára fullveldisafmælis.
Nemendur í VMA minnast 100 ára fullveldisafmælis.

Allt þetta ár hefur þess verið minnst með ýmsum hætti í samfélaginu að þann 1. desember nk. verða eitt hundrað ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda og hlaut um leið sjálfstæði sem Konungsveldið Ísland. Þar með fékk ríkisstjórn Íslands fullt ríkisvald þótt þjóðhöfðinginn væri áfram Danakonungur. Við lýðveldisstofnunina 17. júní 1944 varð sú breyting að Íslandi varð lýðveldi í stað konungsveldis.

Næstkomandi fimmtudag verður aldarafmæli fullveldisins minnst í VMA á ýmsan hátt, m.a. eru nemendur og kennarar hvattir til þess að klæðast fötum eins og gert var árið 1918 eða koma í íslenskum búningi - hvort sem það verður með nýjum útfærslum eða hefðbundinn þjóðbúningur. 

Í tengslum við fullveldið hafa nemendahópar verið að vinna hin ýmsu verkefni um fullveldi Íslands, þar á meðal í stjórnmálafræði hjá Þorsteini Krüger. Þar var nemendum skipt í fjóra hópa og þeir unnu skyggnur um ýmsar hliðar á fullveldinu sem verða síðan til sýnis á fimmtudaginn í Gryfjunni.
Margt áhugavert var skoðað í þessu sambandi. Í fyrsta lagi hvað fólst í því að Ísland varð fullvalda, hvað breyttist við fullveldið og hvernig var sambandi Íslands og Danmerkur háttað til 1918? Í öðru lagi skoðuðu nemendur hvað fælist í því að verða fullvalda þjóð og hvernig staða Íslands væri í alþjóðasamfélaginu og gagnvart alþjóðlegum samningum og skuldbindingum. Í þriðja lagi veltu nemendur vöngum yfir Íslandi og Evrópusambandinu og stöðu landsins gagnvart fullveldinu ef Ísland gengi í ESB. Og í fjórða lagi skoðuðu nemendur efnahagshrunið fyrir áratug og leituðust við að svara þeirri spurningu hvort Ísland hafi mögulega glatað fullveldi sínu með aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að efnahagslegri endurreisn landsins.

Hér eru myndir sem voru teknar í síðustu viku þegar nemendur í stjórnmálafræðiáfanganum veltu vöngum yfir fullveldi Íslands.