Fara í efni

Grunnteikningin er mikilvægur þáttur

Í þungum þönkum í grunnteikningunni.
Í þungum þönkum í grunnteikningunni.

Einn af mikilvægum þáttum í námi verðandi iðnaðarmanna er að kunna skil á að teikna upp ýmis form og lesa úr teikningum. Þetta á til dæmis við um nemendur í byggingagreinum (húsasmíði, pípulagnir og múrsmíði), málmiðn og vélstjórn. Grunnteikning 1 og 2 eru þeir grunnáfangar sem nemendur á þessum brautum taka í VMA.

Nemendur voru önnum kafnir við að vinna verkefni í grunnteikningu 2 hjá Jóhanni Kristjánssyni kennara þegar litið var inn í tíma hjá honum á dögunum. Jóhann kennir núna á vorönn fjórum nemendahópum grunnteikningu 2 og því er í mörg horn að líta hjá honum. Grunnteikningu 1 kennir Baldvin Ringsted á þessari önn.

Jóhann segir mikilvægt að nemendur hafi færni í því að rissa sjálfir upp teikningar og því sé teiknivinnan í grunnteikningu ekki á undanhaldi, þrátt fyrir alla tölvu- og forritavæðingu. Í námsmati er mikið lagt upp úr að nemendur vinni og skili teikningum af ýmsum toga. En einnig taka nemendur í grunnteikningu 2 hluta af kennslutíma sínum í tölvustofunni og þjálfa sig m.a. í notkun AutoCad forritsins, sem er eitt af mest ríkjandi forritum í hverskonar hönnun.

Jóhann Kristjánsson hefur mikla reynslu í að kenna grunnteikningu. Hann hóf störf við VMA sl. haust en áður hafði hann kennt í sextán ár við Menntaskólann á Ísafirði – bæði grunnteikningu og raungreinar – og þar áður hafði hann verið í grunnskólakennslu.