Fara í efni

Vélstjórnarnemar kynntu þrjú tryllitæki

Bjarki, Bjartur og Sölvi við Go-Kart bílinn.
Bjarki, Bjartur og Sölvi við Go-Kart bílinn.

Hugmyndafluginu eru engin takmörk sett þegar kemur að lokaverkefnum vélstjórnarnema í VMA og metnaðurinn er mikill. Það mátti heldur betur sjá í gær þegar þrjú lokaverkefni vélstjórnarnema voru kynnt á braut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjallsveg. Um var að ræða þrjár mismunandi útgáfur af farartækjum sem nemendur hafa unnið hörðum höndum að því að smíða og öll virkuðu þau vel þegar á hólminn var komið í gær.

Það er orðinn fastur liður að á lokaönn sinni í vélstjórnarnáminu vinna nemendur lokaverkefni af ýmsum toga. Þau eru vitanlega eins margbreytileg og þau eru mörg og í mörgum tilfellum tengjast þau áhugamálum nemenda. Í gær kynntu sjö nemendur þrjú lokaverkefni, þrír unnu saman að einu verkefninu og tvö verkefnin voru unnin af tveimur nemendum hvort.

Þeir sjö nemendur sem kynntu farartækin sín í gær eru hluti af hópi nemenda sem er að ljúka vélstjórnarnáminu í vor. Hinir nemendurnir eiga eftir að kynna sín verkefni, sem eru af allt öðrum toga.

Fjöldi fólks lagði leið sína á svæði Bílaklúbbsins í gær til þess að sjá farartækin. Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, var þar á meðal og settist hún undir stýri á öllum þremur farartækjunum.

Því verður ekki á móti mælt að til þess að hanna og smíða farartæki eins og vélstjórnarnemarnir sýndu í gær þurfa þeir að hafa safnað í sarpinn drjúgt mikilli þekkingu á ýmsum sviðum og það er einmitt það sem vélstjórnarnámið gefur þeim. Það er mjög breitt og viðamikið nám sem gefur mikla möguleika á vinnumarkaði.

Tvíburarnir Ásbjörn og Þórólfur Guðlaugssynir, sem eru frá Grímsey, smíðuðu gríðarlega öflugan Buggy bíl sem er hugsaður fyrir torfæruakstur. Það sást vel á braut Bílaklúbbs Akureyrar í gær að bíllinn er mjög kraftmikill og hefur mikla fjöðrun. Smíði bílsins hófu þeir bræður árið 2018 og ákváðu að setja punktinn yfir i-ið með því að ljúka henni nú og jafnframt væri bíllinn þeirra lokaverkefni í vélstjórnarnáminu.

Go-Kart bíll þeirra Bjarka Freys Sveinssonar, Bjarts Geirs Gunnarssonar og Sölva Sverrissonar er sömuleiðis afar kraftmikill og hraðskreiður, knúinn með 500 cc bensínmótor.

Þriðja farartækið, sem Guðni Jóhann Sveinsson, yngri bróðir Bjarka Freys Sveinssonar, og Jakob Máni Reykjalín Jóhannsson hönnuðu og smíðuðu er óvenjulegt en bráðskemmtilega hugsað. Þetta er fjögurra hjóla ”Drifter” sem hefur að auki eitt stærra rafdrifið hjól.

Hér er fullt af ljósmyndum sem Hilmar Friðjónsson kennari tók af þessari skemmtilegu kynningu:

Myndaalbúm 1

Myndaalbúm 2

Hér eru nokkrar myndir sem Vilhjálmur Kristjánsson kennari í vélstjórn og leiðbeinandi í lokaverkefnisáfanganum tók.

Hér er umfjöllun RÚV um Buggy-bíl Ásbjörns og Þórólfs Guðlaugssona.