Fara í efni

Kynning á fjölbreyttum verkefnum vélstjórnarnema

Óskar Helgi og Jökull Þorri kynna verkefni sitt.
Óskar Helgi og Jökull Þorri kynna verkefni sitt.

Kynning á lokaverkefnum vélstjórnarnema í VMA er einn af föstum liðum á lokaönn þeirra í náminu. Sú hefð hafði skapast að bjóða til slíkrar kynningar í húsakynnum VMA undir lok vorannar en í fyrra var það ekki unnt vegna kórónuveirufaraldursins og því kynntu nemendur verkefni sín rafrænt. Það sama var upp á teningnum í ár.

Vélstjórnarnemarnar sem kynntu verkefni sín eru:

Ari Rúnar Gunnarsson
Birkir Freyr Elvarsson
Davíð Fannar Sigurðarson
Elvar Jóhann Sigurðsson
Guðjón Óskar Steinarsson
Guðmundur Heiðar Hauksson
Jökull Þorri Helgason
Kristján Elinór Helgason
Óskar Helgi Ingvason
Sigurður Traustason
Viktor Már Sverrisson
Þór Wium Elíasson
Ögri Harðarson
Örn Arnarson

Davíð Fannar Sigurðarson
Í verkefni Davíðs Fannars er áherslan á hönnun vals fyrir harðfiskverkun. Valsinn var teiknaður upp í 3D forriti með málsettum smíðateikningum. Áhersla var lögð á öryggi við notkun á tækinu og að sem minnst hætta væri á að slys gætu orðið við notkun.

Elvar Jóhann Sigurðsson 
Verkefni Elvars fólst í að greina þær lausnir sem framleiðendur skipavéla hafa farið með það að markmiði að minnka olíueyðslu véla. Einnig hvaða lausnir hafa komið fram sem varðar meðhöndlun á afgasi véla með það að markmiði að minnka útblástur á mengandi efnum. Í verkefninu var sjónum beint að því hvernig þessar lausnir henti í íslenska skipaflotanum.

Kristján Elinór Helgason og  Örn Arnarson
Í ljós hefur komið að ryðfrítt stál sem notað hefur verið hér á landi í sjólagnir tærist. Í verkefni Kristjáns og Arnar var m.a. skoðaður búnaður í fyrirtæki á Húsavík þar sem heitur sjór er nýttur til sjóbaða. Í verkefninu var gaumgæfilega skoðað hvað það er sem veldur tæringunni og hvaða leiðir séu færar til úrbóta.

Viktor Már Sverrisson
Verkefni Viktors fólst í hönnun, teikningu og smíði á úrhleypibúnaði fyrir jeppa. Í verkefninu fólst að skila ítarlegri teikningu í þvívídd af búnðinum. Einnig að skila teikningu af stýribúnaði fyrir kerfið auk virknilýsingar á kerfinu. 

Þór Wium Elíasson
Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við neysluvatnskerfi Norðurorku. Talsverð fallhæð er að fyrirhuguðum neysluvatnstanka ofan Akureyrar og er fyrirhugað að nýta þrýstifallið til að knýja rafala og nýta þannig stöðuorku vatnsins á leiðinni í tankinn. Verkefni Þórs fólst í greiningarvinnu á m.a fallhæð vatns, vatnsmagni og þeim möguleikum serm hugsanlegir eru fyrir hendi. Einnig að skoða búnaðinn sem er fáanlegur og má nýta í þessa framkvæmd

Óskar Helgi Ingvason,  Jökull Þorri Helgason, Guðmundur Heiðar Hauksson, Ögri Harðarson og Ari Rúnar Gunnarsson
Nokkrir aðilar á Norðurlandi kanna kosti þess að nýta varma sem orkugjafa til að knýja kælikerfi. Víða á svæðinu er vami sem er aðgengilegur og mætti nýta í þessu skyni. Slík tækni gætu mögulega skapað tækifæri t.d. við frostþurrkun matvæla. Fimm vélstjórnarnemar hafa unnið að þessu áhugaverðu verkefni og kynntu þeir vinnu sína í þremur kynningum.

Guðjón Óskar Steinarsson
Verkefni Guðjóns var að skrifa námsefni í reglunartækni. Miðað var við að endurskrifa kafla 5 í reglunartæknibókinni sem notuð hefur verið undafarin ár til kennslu í vélstjórnarnáminu. Áherslan í verkefninu er á stjórnun jarðavarmavirkjana og reglunartækni sem beitt er. 

Sigurður Traustason
Lokaverkefni Sigurðar felst í hönnun og teikningum af beltabúnaði undir bíl. Markmið með verkefninu var að hanna og teikna búnað fyrir lítinn fólksbíl og skoða jafnframt val á efni í búnaðinn.

Birkir Freyr Elvarsson
Lokaverkefni hans er loftknúin vél sem gefur upp blakbolta.

----

Framangreind verkefni voru kynnt rafrænt í gær, Hilmar Friðjónsson annaðist upptökur á þeim og þær verða aðgengilegar síðar í vikunni á youtube rás VMA. Það verður kynnt nánar hér á vefsíðu skólans.