Fara í efni

Vélstjórnarnemar kynntu lokaverkefni

Vélstjórnarnemar á síðustu námsönn.
Vélstjórnarnemar á síðustu námsönn.
Liður í námi vélstjórnarnema á lokaönn í VMA eru lokaverkefni af ýmsum toga sem í mörgum tilfellum eru unnin í samstarfi við fyrirtæki. Nemendurnir kynntu væntanleg verkefni sín í VMA í gær.

Liður í námi vélstjórnarnema á lokaönn í VMA eru lokaverkefni af ýmsum toga sem í mörgum tilfellum eru unnin í samstarfi við fyrirtæki. Nemendurnir kynntu væntanleg verkefni sín í VMA í gær.

Við vinnslu lokaverkefnanna er leitast við að nemendurnir nýti reynslu sína úr starfsnámi á vinnustað og þá þekkingu og færni sem þeir hafa aflað sér í náminu. Markmiðið er m.a. að efla samstarf og tengsl nemenda við atvinnulífið, þjálfa þá í sjálfstæðum vinnubrögðum og standa skipulega að framsetningu og kynningu á viðfangsefnunum.

Vilhjálmur G. Kristjánsson, brautarstjóri í vélstjórn, segir að lokaverkefni á lokaönn sé nýjung í námi vélstjóra, þessi þriggja eininga áfangi sé nú hluti af nýrri námskrá. Vilhjálmur segir ánægjulegt að skynja mikinn áhuga nemendanna á þeim verkefnum sem þeir hafa tekið að sér.

Tólf nemendur eru í þessum lokaverkefnisáfanga og eru verkefnin sjö. Fimm þeirra eru unnin af tveimur nemendum en tvö eru einstaklingsverkefni. Óhætt er að segja að verkefnin séu fjölbreytt; hönnun vélbúnaðar til að steypa kerfi, vinnsla olíu úr plasti, vinnsla próteins úr affallsvatni frá rækjuverksmiðju, hönnun rafsegulbremsu, smíði tveggja strokka vélar, svo nokkur af þessum áhugaverðu verkefnum séu nefnd.

Sem fyrr segir er áhersla lögð á samstarf við atvinnulífið. Bæði hafa forráðamenn fyrirtækja hafa samband við kennara vélstjórnarbrautar og einnig hafa nemendur haft frumkvæði að verkefnum og fengið fyrirtæki til liðs við sig.  Við vinnslu lokaverkefnanna eru vélstjórnarnemarnir m.a. í samstarfi við Norðurorku á Akureyri, Iðjulund á Akureyri, Kaupfélag Skagfirðinga á Sauðárkróki og rækjuvinnsluna á Hólmavík.

Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, fylgdist með kynningu nemendanna á lokaverkefnum sínum í gær. Hún fagnaði fjölbreyttum viðfangsefnum nemendanna og sagðist hlakka til þess að sjá afraksturinn í vor. Nemendur fengju með þessu móti tækifæri til þess að takast á við áhugaverð og raunhæf verkefni, sem væru til þess fallin að afla þeim mikilvægrar reynslu. Þá væri ekki síður mikilvægt veganesti nemenda til frekara náms að fá þjálfun í að kynna slík viðfangsefni.

Á meðfylgjandi mynd eru tíu af tólf vélstjórnarnemum í VMA í lokaverkefnisáfanganum. Tveir nemendur voru veðurtepptir á Sauðárkróki í gær og gátu því ekki kynnt verkefni sitt.