Vélstjórnarnemar á leið til Vaasa í Finnlandi

Um helgina fer hópur 20 vélstjórnarnema (af 2., 3. og 4. ári) og tveir kennarar, Sævar Páll Stefánsson og Íris Arngrímsdóttir, í námsferð til Finnlands, nánar tiltekið til borgarinnar Vaasa sem er á vesturströndinni. Ferðin er fjármögnuð af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB. Sævar Páll kennari segir að þessi ferð hafi lengi verið í undirbúningi og ótrúlega vel hafi tekist til með skipulagningu hennar.
Hópurinn flýgur annað kvöld frá Akureyri til Reykjavikur og á laugardagsmorguninn verður flogið til Helsinki og áfram til Vaasa. Tími gefst á sunnudaginn til þess að skoða sig um í Vaasa en hin eiginlega dagskrá ferðarinnar hefst nk. mánudag. Þá verður fyrst farið í heimsókn í höfuðstöðvar Wärtsilä, sem er einn af af stærstu vélaframeiðendum heims. Síðan verður heimsóttur skólinn Vamia, sem VMA hefur áður átt í samstarfi við og er um margt ekki ósvipaður VMA.
Á þriðjudag og miðvikudag verður hópurinn á námskeiði hjá sérfræðingum hjá Wärtsilä. Sett hefur verið upp afar áhugavert verklegt námskeið fyrir nemendur um eitt og annað sem þessi stóri vélaframleiðandi hefur verið að þróa fyrir vélar framtíðarinnar, t.d. er lýtur að sjálfvirkni, nýtingu orkugjafa og ekki síst öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti.
Sævar Páll Stefánsson segir að námskeiðið sem Wärtsilä hefur sett upp fyrir hópinn sé afar áhugavert og ástæða sé til að þakka alveg sérstaklega hvernig að málum sé staðið af hálfu fyrirtækisins. Þá vill Sævar Páll koma á framfæri einlægum þökkum til starfsmann Véla og skipa í Reykavík, umboðsfyrirtækis Wärsilä á Íslandi, fyrir aðstoð og fjárhagslegan stuðning við ferðina og einnig nefnir Sævar að Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri styrki fjárhagslega þessa ferð. Fyrir allan þennan stuðning og fyrirgreiðslu vill hann þakka alveg sérstaklega.
Sævar Páll segir sérlega ánægjulegt að unnt hafi verið að koma þessari ferð á, eftir því sem hann best viti sé þetta í fyrsta skipti sem vélstjórnarnemar í VMA fari í slíka ferð til útlanda.
Næstkomandi fimmtudag ferðast hópurinn í rútu frá Vaasa í suður með vesturströndinni. Á leiðinni verða skoðaðir áhugaverðir gamlir bæir og einnig verður stoppað í gestastofu kjarnorkuversins Olkiluoto, sem er gríðarlega stórt (eins og þreföld Kárahnjúkavirkjun) og sér um þriðjungi landsins fyrir raforku. Síðan verður ekið áfram til höfuðborgarinnar Helsinki og þangað komið undir kvöld. Flogið verður síðan heim daginn eftir, föstudaginn 30. maí.