Fara í efni

Vélstjórnarnámið gefur gífurlega atvinnumöguleika

Patreksfirðingurinn Árni Bæring Halldórsson.
Patreksfirðingurinn Árni Bæring Halldórsson.

Patreksfirðingurinn Árni Bæring Halldórsson lýkur vélstjórnarnámi frá VMA síðar í þessum mánuði og hefur sett stefnuna á að starfa  í sjávarútveginum í framtíðinni. Í lokaverkefni sínu í vélstjórnarnáminu setur hann fram hugmynd að nýrri útfærslu á netaspili fyrir grásleppuveiðar.

„Ég er fæddur 1994 og byrjaði hér í VMA fyrir fjórum árum. Áður hafði ég tekið tvö ár heima á Patreksfirði á náttúrufræðibraut í fjarnámi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Ég kom síðan inn í grunndeild málmiðnaðar hér og hélt áfram í vélstjórn. Þegar ég útskrifast hef ég lokið 260 einingum, þetta hefur því í heildina tekið sex ár og ég er mjög sáttur þegar upp er staðið. Þetta er gott og krefjandi nám, mikil stærðfræði og rökhugsun og atvinnumöguleikarnir eru gífurlegir. Maður er alltaf að sjá fleiri og fleiri möguleika á vinnumarkaðnum með þessa menntun. Mér hefur tekist að fjármagna námið með sjómennsku og hef því ekki tekið krónu að láni frá LÍN. Ég hef nýtt öll námsfrí til þess að fara á sjóinn og ná mér í pening – á sumrin auðvitað, um jól, páska og í vetrarfríum. Forgangsröðunin hjá mér hefur verið skólinn, vinna og síðan að borða og sofa. Í sumar ætla ég að fara á sjó og síðan hyggst ég vinna í vélsmiðju í fimmtán mánuði til þess að fá titilinn vélvirki. Til þess að fá vélstjórnarréttindi þarf ég síðan að vera í ákveðinn tíma á sjó á mismundandi stórum bátum og skipum og það er mitt plan að verða vélstjóri.“

Netaspil á grásleppuveiðum kveikjan að lokaverkefninu
Fjölskylda Árna er með útgerðina Látraröst á Patreksfirði, sem gerir út fimmtán brúttótonna bát á grásleppu, makríl, skötuselsnet o.fl.  „Hugmyndin að lokaverkefni mínu hérna í vélstjórninni tengist einmitt grásleppuveiðum. Á grásleppunni erum við með svokallað netaspil sem dregur netin innfyrir borðstokkinn. Gallinn við þau netaspil sem eru til sölu í dag er að þau eru dýr og níðþung af því að þau eru úr ryðfríu stáli. Flestir þeir bátar sem eru á grásleppuveiðum eru frekar litlir og þeir þola ekki svona mikinn þunga út í stjórnborðssíðuna og um leið rýrir það stöðugleika bátanna. Lokaverkefni mitt gekk út á að finna leið til þess auka stöðugleikann og minnka slagsíðuna með sama búnaði, en þó með léttari efnum. Í stað stálsins hef ég reiknað út að spil smíðað úr trefjaplasti yrði tveimur þriðju léttara en stálspilin sem eru algeng í dag – þau yrðu 20 kg í stað 60 kg. Þetta tel ég vera raunhæft og það staðfesta þeir sem vinna í bátasmíði hér á landi. Ég hef bæði verið í sambandi við Trefja í Reykjavík sem smíða Cleopötru bátana og einnig Sverri hjá Seiglu hér á Akureyri og báðir þessir aðilar hafa gefið hugmyndinni góða einkunn. Í verkefninu fer ég m.a. í það hvaða efni ég myndi vilja nota og set fram ýmsa útreikninga hugmynd minni til stuðnings,“ segir Árni Bæring.