Fara í efni

Vel mætt á framboðsfund í Gryfjunni

Margir í Gryfjunni á framboðsfundinum.
Margir í Gryfjunni á framboðsfundinum.

Liður í lýðræðisvikunni sem nú stendur yfir í VMA var framboðsfundur í Gryfjunni í hádeginu í gær þar sem fulltrúum allra flokka í Norðausturkjördæmi sem hafa birt lista fyrir alþingiskosningarnar 25. september nk. gafst kostur á því að kynna stefnumál sín og svara spurningum.

Tíu flokkar eru í kjöri í Norðausturkjördæmi. Eftirtalin voru fulltrúar flokkanna á fundinum í VMA í gær (sæti á framboðslistanum í sviga):

D – Sjálfstæðisflokkur – Berglind Ósk Guðmundsdóttir, 2. sæti
F – Flokkur fólksins – Jakob Frímann Magnússon, 1. sæti
V – Vinstri hreyfingin, grænt framboð – Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, 1. sæti
O – Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn – Björgvin E. Vídalín Arngrímsson, 1. sæti
J – Sósíalistaflokkur Íslands – Margrét Pétursdóttir, 2. sæti
S – Samfylkingin – Logi Már Einarsson, 1. sæti
C – Viðreisn – Ingvar Þóroddsson, 3. sæti
B – Framsóknarflokkurinn – Ingibjörg Isaksen, 1. sæti
P - Píratar – Einar Brynjólfsson, 1. sæti
M – Miðflokkurinn – Anna Kolbrún Árnadóttir, 2. sæti

Nemendafélagið Þórduna og nemendur og kennarar í lýðræðis- og mannréttindaáföngum höfðu veg og vanda að fundinum, sem stóð í um klukkustund og tókst prýðilega. Fundarstjóri var Rudolf Helgi Kristinsson, nemandi á félags- og hugvísindabraut.

Vel var mætt í Gryfjuna og trúlega hafa trúlega ekki jafn margir verið þar saman komnir á skólatíma síðan fyrir Covid-faraldurinn. Höfðu fulltrúar flokkanna orð á því að þetta væri fjölmennasti framboðsfundurinn til þessa fyrir alþingiskosningarnar 25. september nk.

Að loknum þriggja mínútna kynningum flokkanna á stefnumálum sínum fyrir kosningarnar var opnað fyrir spurningar og gafst tími fyrir þrjár spurningar, sem öll framboðin svöruðu,  – í fyrsta lagi um stjórnarskrármálið, í öðru lagi var spurt um kynbundið ofbeldi og þriðja spurningin var um geðheilbrigðismál.

Hér er fullt af myndum til viðbótar af framboðsfundinum í Gryfjunni sem Hilmar Friðjónsson kennari tók.