Fara í efni

Vel heppnuð menningarferð til Húsavíkur

Hópurinn í góðum gír á Húsavík. Mynd: Hilmar F.
Hópurinn í góðum gír á Húsavík. Mynd: Hilmar F.

Þó svo að skólabækurnar séu eðli málsins samkvæmt í forgrunni í námi nemenda getur verið gott að brjóta upp hversdaginn annað slagið og gera eitthvað allt annað. Það gerðu nemendur og kennarar á annars vegar félags- og hugvísindabraut og hins vegar viðskipta- og hagfræðibraut VMA sl. miðvikudag þegar félög þessara brauta efndu til menningarferðar til Húsavíkur. Um þrjátíu nemendur fóru austur og með í för voru fimm kennarar, þar á meðal Hilmar Friðjónsson sem settist undir rútustýri og flutti mannskapinn í gegnum Vaðlaheiðargöng og austur á Húsavík. Það kom sér heldur betur vel að búið væri að opna göngin því framan af degi sl. miðvikudag var hið versta veður í Víkurskarði og það því lokað.

Þegar austur á Húsavík var komið lá leiðin beint á Hvalasafnið og það skoðað í krók og kring. Meðal annars er þar að sjá beinagrindur ellefu hvalategunda, sú stærsta af 25 metra langri steypireyði. Síðan lá leiðin á veitingastaðinn Sölku þar sem hópsins beið pizzahlaðborð. Loks var farið í GeoSea sjóböðin á Húsavíkurhöfða, sem voru opnuð á síðasta ári og hafa notið vinsælda.

Ferðin tókst í alla staði afar vel og hópurinn skemmti sér hið besta. Slíkar ferðir eru til þess fallnar að þjappa fólki saman, sem er hluti af góðu skólastari.

Hilmar Friðjónsson kennari tók þessar myndir í menningarferðinni og Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari tók þessar myndir.