Fara í efni

Vel heppnaður framboðsfundur í Gryfjunni

Frambjóðendur í Gryfjunni í dag.
Frambjóðendur í Gryfjunni í dag.
Í morgun var hálfs annars tíma langur framboðsfundur fyrir alþingiskosningarnar 29. október nk. haldinn í Gryfjunni. Fulltrúar þeirra níu framboða í Norðausturkjördæmi sem þegar hafa kynnt sína framboðslista mættu á fundinn og gerðu grein fyrir áherslum sínum fyrir kosningarnar og að loknum þriggja mínútna löngum kynningarávörpum frambjóðendanna níu var opnað fyrir spurningar úr sal og spunnust mjög fróðlegar og áhugaverðar umræður. Lýstu frambjóðendur mikilli ánægju með hvernig til tókst, hversu fjölmennur fundurinn var og þann áhuga sem nemendur sýndu því sem frambjóðendur höfðu fram að færa.
 
Spurningar nemenda til frambjóðenda voru afar fjölbreyttar: Fjármál framhaldsskólanna í landinu, afstaða til nýlega samþykktra búvörusamninga, afstaða til raforkuöryggis í Eyjafirði, um sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni, afstaða til Reykjavíkurflugvallar, fyrirkomuleg sjávarútvegsmála, af hverju frambjóðendur gáfu kost á sér, af hverju kjósendur ættu að trúa því að frambjóðendur standi við það sem þeir lofi, hvar konurnar væru (karlmenn voru fulltrúar allra framboðanna níu í dag) og hver afstaða frambjóðenda væri til húsnæðismála ungs fólks.
 
Af hálfu framboðanna níu í Norðausturkjördæmi mættu á fundinn: Björgvin Rúnar Leifsson - 2. sæti á lista Alþýðufylkingarinnar, Preben Pétursson - 1. sæti á lista Bjartrar framtíðar, Sigurður Eiríksson - 1. sæti á lista Dögunar, Sigfús Arnar Karlsson - 4. sæti á lista Framsóknarflokksins, Logi Már Einarsson - 1. sæti á lista Samfylkingarinnar, Elvar Jónsson - 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, Hans Jónsson - 4. sæti á lista Pírata, Kristófer Alex Guðmundsson - 7. sæti á lista Viðreisnar og Björn Valur Gíslason - 3. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.