Fara í efni

Vel heppnaðar fjarmenntabúðir

Útsending í fjarmenntabúðum frá FabLab í VMA.
Útsending í fjarmenntabúðum frá FabLab í VMA.

„Mér fannst þetta heppnast vel og ég heyri ekki annað en að fólk hafi verið ánægt með hvernig til tókst,“ segir Urður María Sigurðardóttir, kennari við VMA og einn þriggja mentora skólans í upplýsingatækni, um fjarmenntabúðir framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra sl. fimmtudag. SAMNOR er samstarfsvettvangur fimm framhaldsskóla í Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafirði; Framhaldsskólans á Húsavík, Framhaldsskólans á Laugum, Menntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Tröllaskaga.

Menntabúðir voru nú haldnar í þriðja skipti, í fyrsta skipti rafrænar vegna þjóðfélagsástandsins. Til stóð að halda þær sl. vor í VMA en Covid kom í veg fyrir það. Ákveðið var að fresta búðunum til haustsins í von um að unnt væri að ná fólki þá saman en það tókst ekki vegna núgildandi sóttvarnareglna. Engu að síður voru menntabúðirnar haldnar og notast við fjartæknina.

Urður María Sigurðardóttir segir að menntabúðirnar, sem voru milli klukkan 15 og 17 sl. fimmtudag, hafi verið ágætlega sóttar, þegar flest var hafi á milli fimmtíu og sextíu manns tekið þátt í þeim.

Menntabúðirnar hófust með tveimur aðalerindunum. Annars vegar ræddi Bergmann Guðmundsson, verkefnastjóri í Giljaskóla á Akureyri um þróunina í upplýsingatækni og kennslu í grunnskólanum. Bergmann varpaði ljósi á þekkingu og leikni nemenda í Giljaskóla þegar þeir færu þaðan í framhaldsskóla. Hitt aðalerindið flutti Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi við Háskólann á Akureyri, og ræddi hún um þróun upplýsingatækni á  háskólastigi. Í erindi sínu fjallaði Helena einnig um hvaða þekkingu og leikni framhaldsskólanemar þyrftu að búa yfir við upphaf háskólanáms.

Í síðari hluta menntabúðanna voru málstofur með fjölbreyttum erindum og kynningum. Meðal annars kynnti Jón Þór Sigurðsson FabLab stofuna í VMA í beinni útsendingu þar sem hann gekk um stofuna og sýndi fólki hvað hún hefði upp á að bjóða. Þetta var unnt að gera með hjálp myndatöku- og hljóðupptökumanna, sem komu úr röðum nemenda í VMA. Til hefur orðið öflugt tækniteymi nemenda í skólanum og það sýndi vel í þessari útsendingu hvað það getur. Vel að verki staðið, er óhætt að segja.

Áfram var haldið með málstofur og var margt áhugavert í boði. Sunna Hlín Jóhannesdóttir, kennari í VMA, fjallaði um Turnitin, Ida Marguerite Semey og Karolína Baldvinsdóttir í Menntaskólanum á Tröllaskaga fjölluðu um Book Creator í tungumála- og listnámi, Helena Sigurðardóttir og Diljá Dögg Gunnarsdóttir í Háskólanum á Akureyri fjölluðu um sjálfshjálparvefsíðuna Snjallvefjuna, Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir í Menntaskólanum á Tröllaskaga kynntu skapandi skil – podcast, Hilmar Friðjónsson, kennari í VMA, ræddi um framtíðarsýn í media-kennslu í framhaldsskólum (hann var líka í beinni útsendingu úr FabLab stofunni í VMA), Bergmann Guðmundsson, verkefnastjóri í Giljaskóla, fjallaði um umsýslu í tækja- og kennsluhugbúnaði og loks ræddi Jóhann Þorsteinsson, kennari í VMA um SketchUp og Mindmaster.