Fara í efni

Vel heppnað og fróðlegt haustþing

Haustþing framhaldsskólanna á Norðurlandi í Kvosinni í MA. Mynd: Hilmar Friðjónsson.
Haustþing framhaldsskólanna á Norðurlandi í Kvosinni í MA. Mynd: Hilmar Friðjónsson.

Haustþing starfsfólks framhaldsskólanna á Norðurlandi í dag tókst með miklum ágætum. Það var vel sótt og framsöguerindi voru afar áhugaverð og vöktu umræður. Hilmar Friðjónsson kennari í VMA var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir.

Starfsfólk framhaldsskólanna hittist upp úr klukkan níu í morgun í Kvosinni í MA. Dagskráin hófst klukkan hálf tíu þegar Karl Frímannsson, skólameistari MA, bauð fólk velkomið og gaf síðan orðið til Katrínar Frímannsdóttur, stefnu- og gæðastjóra Háskóla Íslands, sem fjallaði frá ýmsum hliðum um tækifæri og ógnir gervigreindar í skólastarfi. Afar áhugavert erindi hjá Katrínu sem vakti margar skemmtilegar hugrenningar þinggesta. Ljóst er að gervigreindin er komin til að vera og því aðeins spurningin hvernig skólakerfið - nemendur og kennarar - nýta sér hana. Háskóli Íslands hefur sett upp vefsíðu um gervigreind sem vert er að gefa gaum.

Tveir nemendur í MA, Magnús Máni Sigurgeirsson og Tómas Óli Ingvarsson, fjölluðu síðan um gervigreind út frá sjónarhorni nemenda. Báðir hafa þeir nýtt sér þetta nýlega aðgengilega veftól og sögðu skemmtilega frá sinni upplifun af því.

Áður en gert var stutt kaffihlé kitlaði uppistandarinn Jakob Birgsson hláturtaugar viðstaddra með nokkrum skopsögum.

Petra Ingvadóttir, framkvæmdastjóri Ungra frumkvöðla - JA Iceland, flutti síðan fróðlegt erindi um frumkvöðla og nýsköpun en lengi hafa nemendur í framhaldsskólum víða um land tekið þátt í keppni frumkvöðla sem jafnan er haldin á vorönn.

Í hádeginu var boðið upp á hádegisverð í Gryfjunni í VMA og að honum loknum var gestum haustþingsins skipt á málstofur þar sem fjölmörg sameiginleg mál skólanna voru rædd.

Haustþinginu lauk um klukkan þrjú í dag og er óhætt að segja að það hafi tekist með miklum ágætum. Slíkt þing hefur ekki verið haldið síðan fyrir kóvidfaraldurinn en vonandi verður það fastur liður í framtíðinni.