Fara í efni

Vel heppnað námsleyfi í Porto

Björg Eiríksdóttir í veðurblíðunni í Porto.
Björg Eiríksdóttir í veðurblíðunni í Porto.

Námsleyfi sitt á síðasta skólaári nýtti Björg Eiríksdóttir, kennari við listnáms- og hönnunarbraut VMA, til þess að bæta við sig frekari þekkingu í myndlist. Björg sótti meistaranám við myndlistardeild háskólans í Porto í Portúgal.

Björg segir að námið og dvölin í Portúgal hafi verið mikið ævintýri, bæði námið og að búa í öðru landi og njóta þar menningar og náttúru.

Auk þess að sækja myndlistarnámið í háskólanum hafði Björg aðgang að vinnustofu sem nemendur í málunardeildinni deildu og stundaði þar sína listsköpun. Covid setti þó strik í reikninginn og var skólanum og vinnuaðstöðunni lokað í nokkrar vikur á vormisseri. Þá var, eins og víða annars staðar, gripið til Zoom funda á netinu til þess að þráðurinn milli nemenda og kennara myndi ekki slitna.

Björg segir að tíminn í Portúgal hafi verið í senn nærandi og gefandi. Hið daglega líf hafi verið á rólegum nótum og óþolinmæði líti Portúgalir hornauga. Þeir séu afar vinalegir og hjálplegir og fúsir að greiða götu fólks á allan hátt.

Björg og Árni Valdimarsson, eiginmaður hennar, fóru til Portúgal sl. haust og dvöldu þar allan síðasta vetur. Upphaflega horfði Björg til þess að taka opin námskeið í málaralistinni og bæta þannig við sig þekkingu og kom Toronto í Kanada til greina. Málin tóku þó aðra stefnu og var sjónum beint að löndum á suðlægum slóðum. Björg settist við tölvuna og sótti um skóla í nokkrum löndum en eftir að hafa heyrt í fólki sem til þekkti var Porto niðurstaðan. Þar bjuggu þau hjónin í hjarta borgarinnar og líkaði vel. „Við höfðum aldrei búið í öðru landi en það var eitthvað sem okkur hefur langað til að prófa. Þarna gafst tækifæri til þess að gera það auk þess sem ég fékk tækifæri til þess að auka þekkingu mína í málverkinu,” segir Björg sem tók aftur upp þráðinn í kennslunni á listnáms- og hönnunarbraut VMA núna á haustönn eftir vel heppnað námsleyfi.