Fara í efni

Veglegur stuðningur Johan Rönning og tengdra aðila við rafiðndeild VMA

Nemendur og kennarar og Friðbjörn rekstrarstjóri.
Nemendur og kennarar og Friðbjörn rekstrarstjóri.

Nýverið færðu Johan Rönning hf. og dótturfélagið Sindri vinnuföt ásamt Rafiðnaðarsambandi Íslands og Rafvirkjafélagi Norðurlands öllum nemendum á fimmtu og sjöundu önn í rafvirkjun og rafeindavirkjun í VMA að gjöf glæsilegan jakka. Kennarar í rafiðngreinum fengu einnig jakka að gjöf. Þeir eru merktir VMA og fyrirtækjunum og félögunum sem stóðu að gjöfinni. Verðmæti þessarar veglegu gjafar er 850 þúsund krónur. Hér eru nemendur og kennarar ásamt Friðbirni Benediktssyni, rekstrarstjóra Johan Rönning á Akureyri.

Einnig gáfu Johan Rönning hf. og annað dótturfyrirtæki, Vatn og veitur, rafiðndeild VMA búnað til kennslu í gólfhitastýringum, bæði til tengingar þráðlaust og vírað. Um er að ræða búnað fyrir fjóra verkefnahópa að verðmæti 450 þúsund krónur. Hér má sjá kennarana Björn Hreinsson og Guðmund Inga Geirsson og á milli þeirra er Friðbjörn Benediktsson, rekstrarstjóri Johan Rönning á Akureyri.

Friðbjörn segir að í gegnum tíðina hafi Johan Rönning lagt áherslu á að styðja vel við starfsemi verknámsskólanna í landinu og þessar tvær gjafir núna séu liður í því. Það sé Johan Rönning og dótturfyrirtækjum ánægja að geta lagt starfinu í rafiðndeild VMA lið með þessum hætti.

VMA færir fyrirtækjunum og félögunum sem standa að þessum höfðinglegu gjöfum innilegar þakkir fyrir stuðninginn, sem er skólastarfinu ómetanlegur.