Fara í efni

Vegleg gjöf Ljósgjafans

Fulltrúar Ljósgjafans og VMA.
Fulltrúar Ljósgjafans og VMA.

Síðastliðinn miðvikudag afhenti rafiðnaðarfyrirtækið Ljósgjafinn ehf. á Akureyri rafiðnaðardeild VMA góða gjöf sem mun koma sér afar vel við kennslu í deildinni. Um er að ræða handverkfæri af ýmsum toga sem nýtast í öllum kennslustofum deildarinnar. Ljósgjafinn hefur reynst rafiðnaðardeild afar vel á undanförnum árum og fært henni að gjöf ýmsan búnað sem deildin þarf á að halda við kennslu. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA lét þess getið við þetta tækifæri að það væri ómetanlegt fyrir skólann að eiga að svo góðan bakhjarl sem Ljósgjafann og hún lýsti miklu þakklæti til fyrirtækisins fyrir sýndan hlýhug. Gjöf Ljósgjafans sé til marks um mikilvægi góðs samstarfs skólans og atvinnulífsins.

Guðmundur Ingi Geirsson, kennari við rafiðnaðardeild, segir að slíkur hlýhugur Ljósgjafans sé starfinu í rafðnaðardeild mikils virði og almennt sé óhætt að segja að deildin njóti mikillar velvildar í atvinnulífinu. Fulltrúar rafiðnaðarfyrirtækjanna komi í skólann til þess að kynna sér starfsemina og þau séu fús til þess að taka á móti nemum í verknám. Slíkt samstarf sé mikilvægt, bæði rafiðnaðardeildinni og atvinnulífinu, því það sé gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þess að nesta nemendur eins vel og kostur er áður en þeir fari út í atvinnulífið.

„Við leggjum mikið upp úr samstarfi við atvinnulífið og erum eini skólinn sem sendir nemendur á fimmtu önn í eina viku í verknám út í fyrirtækin. Atvinnulífið hefur tekið mjög vel í að taka nemendur frá okkur í verknám og við höfum líka lagt áherslu á að koma þeim til ólíkra fyrirtækja í þessum geira því staðreyndin er sú að á þessu sviði er sérhæfingin alltaf að verða meiri og meiri. Einnig höfum við fengið að fara með námshópa út í fyrirtækin til þess að kynna sér ýmsa sérhæfða hluti sem við getum ekki sýnt þeim hér í skólanum. Þetta góða samstarf við atvinnulífið er afar mikilvægt því tækniþróunin er mjög hröð í þessum geira eins og öðrum – t.d. í stýringum – og það er okkur kennurunum, nemendunum og fyrirtækjunum ekki síður afar mikilvægt að við getum fylgst vel með öllum nýjungum sem koma á markaðinn. Við erum jú að búa til starfsmenn framtíðarinnar – ef svo má segja – og því skiptir það miklu máli að þeir séu sem best upplýstir og búnir undir að fara út á vinnumarkaðinn. Eins og staðan er núna er mjög mikið að gera fyrir fólk með þessa menntun og það eru ekki horfur á að það sé að breytast alveg á næstunni,“ segir Guðmundur.

Á þessari mynd, sem var tekin við afhendingu gjafar Ljósgjafans, eru frá vinstri: Ólafur Tr. Kjartansson, rafvirki á Ljósgjafanum, Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA, Guðmundur Ingi Geirsson, kennari rafiðngreina í VMA, Stefán Karl Randversson, rafmagnstæknifræðingur á Ljósgjafanum, og Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina í VMA.