Fara í efni

Vefnaðurinn kom mér á óvart

Karitas Fríða Bárðardóttir við vefstólinn.
Karitas Fríða Bárðardóttir við vefstólinn.

„Vefnaðurinn kom mér skemmtilega á óvart en honum hafði ég ekki kynnst áður. Ég er mjög sátt við að hafa farið þessa leið, þetta er að öllu leyti í senn skemmtilegt og áhugavert,“ segir Vopnfirðingurinn Karitas Fríða Bárðardóttir, sem stundar nám á textílsviði listnámsbrautar og stefnir að því að ljúka stúdentsprófi af þeirri braut í vor.

Þegar litið var inn í rými listnámsbrautar þar sem vefstólarnir eru sat Karitas Fríða við vefstólinn og var að vefa teppi. Hún segist oft nýta dauðar stundir til vefnaðar, enda sé hann afar róandi.

Að loknum tíunda bekk á Vopnafirði lá leið Karitasar Fríðu á listnámsbraut VMA. Ekkert annað kom til greina, enda hafði hún hugsað sér að verða fatahönnuður alveg síðan hún var lítil stelpa. Og hún varð ekki fyrir vonbrigðum, námið uppfyllti hennar væntingar. Hún segist hafa komið í skólann árið 2012 og stundað námið þá í hálft annað ár. Hafi þá ákveðið að gera hlé á náminu og farið í janúar 2014 sem aupair í hálft ár til Noregs og síðan um haustið, sama ár, í eitt ár til Svíþjóðar. Engu að síður hætti hún ekki alveg námi því hún tók bókleg fög í fjarnámi VMA. Og eftir dvölina í Svíþjóð hélt hún áfram þar sem frá var horfið í VMA.

Að loknu náminu í VMA, sem Karitas stefnir á að ljúka næsta vor á þremur og hálfu ári, segir hún óráðið hvað taki við. Hún geri þó ekki ráð fyrir að fara strax í skóla, hún hafi áhuga á því að ferðast svolítið og nýta tímann um leið til þess að finna út hvað hana langi til að læra.

Karitas Fríða býr á Akureyri með kærasta sínum, Reyðfirðingnum Margeiri Páli Björgvinssyni, sem einnig stundar nám í VMA, er í vélstjórn og blikksmíði. Síðasta sumar störfuðu þau í álveri Fjarðaáls á Reyðarfirði og segir Karitas að þau muni verða eystra um jólin og taka þá nokkrar vaktir í álverinu.  „Það er mjög gott að vinna í álverinu, þetta er skemmtileg vinna og góðir vinnufélagar,“ segir Karitas Fríða.