Fara í efni

Veðurfarið og uppáhalds liturinn

Nína Kristín Ármannsdóttir við málverkið sitt.
Nína Kristín Ármannsdóttir við málverkið sitt.

Akureyringurinn Nína Kristín Ármannsdóttir lýkur námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í vor. Hún segir að helsta ástæðan fyrir því að hún valdi að fara á listnámsbraut sé einfaldlega sú að hún hafi lengi haft áhuga á listum.

„Það er stóra spurningin,“ svaraði Nína Kristín þegar hún var innt eftir því hvað hún ætlaði að taka sér fyrir hendur að loknu námi í VMA. „Ég er töluvert óráðin í því í hvað ég fer. Að vissu leyti gæti ég hugsað mér að halda áfram á þessari braut en ég gæti líka hugsað mér að fara í eitthvað allt annað. Það kemur bókstaflega allt til greina.“

„Námið á listnámsbrautinni reyndist mér mjög gagnlegt og ég lærði fjölmargt nýtt. Ég er til dæmis núna í skúlptúr sem ég hafði aldrei prófað áður. Málunaráfangarnir voru mjög skemmtilegir og það sama má segja um módeláfangana. Núna er ég að vinna lokaverkefni,“ segir Nína Kristín en er ekki tilbúin að upplýsa hvað í því felst. „Það kemur bara í ljós,“ segir hún og brosir.

Í myndverki Nínu Kristínar, sem hún gerði í málunaráfanga á haustönn og hangir nú upp á veggnum gegnt austurinngangi VMA, er veðurfar í víðri merkingu viðfangsefnið. „Verkið heitir „Ég er“ og í því er ég að túlka veðurfarið. Ég fór oft út að ganga sl. haust og þetta varð niðurstaðan,“ segir Nína Kristín. Laufblöðin í myndinni tíndi hún upp og festi við myndverkið. Blátt yfirbragð myndarinnar á rætur í náttúrunni – himninum og vatninu – og einnig þeirri staðreynd að blátt er uppáhaldslitur Nínu Kristínar.