Fara í efni

Varla enn búin að ná þessu

Ragnheiður og Guðmundur Ármann. Mynd: Ak.stofa.
Ragnheiður og Guðmundur Ármann. Mynd: Ak.stofa.
„Ég var mjög hissa að fá þessa viðurkenningu og er varla enn búin að ná þessu. Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir viðurkenninguna fyrir hönd textíllistar í landinu. Það verður að segjast að hún hefur lengi átt frekar erfitt uppdráttar, en vonandi er smám saman að verða breyting á því,“ segir Ragnheiður Björk Þórsdóttir, kennslustjóri listnámsbrautar VMA og bæjarlistamaður Akureyrar 2014, en þá útnefningu hlaut hún á sumardaginn fyrsta.

„Ég var mjög hissa að fá þessa viðurkenningu og er varla enn búin að ná þessu. Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir viðurkenninguna fyrir hönd textíllistar í landinu. Það verður að segjast að hún hefur lengi átt frekar erfitt uppdráttar, en vonandi er smám saman að verða breyting á því,“ segir Ragnheiður Björk Þórsdóttir, kennslustjóri listnámsbrautar VMA og bæjarlistamaður Akureyrar 2014, en þá útnefningu hlaut hún á sumardaginn fyrsta.

Ragnheiður segist reyna að sinna eigin listsköpun jafnhliða krefjandi starfi í VMA, en það hafi oft verið erfiðleikum bundið, t.d. hafi hún lítið verið á vinnustofu sinni á liðnum vetri. En með þessari útnefningu fái hún vonandi eilítið svigrúm til þess. Um er að ræða launagreiðslu frá Akureyrarbæ til bæjarlistamanns – hálf laun í átta mánuði. Ragnheiður segist eiga eftir að finna flöt á því með skólayfirvöldum í VMA hvernig komandi vetri verði púslað saman, en hún segir síður en svo skort á hugmyndum til þess að vinna úr.

Skrifar yfirgripsmikla bók um vefnað á Íslandi
Óhætt er að segja að Ragnheiður sé með mörg járn í eldinum því auk kennslu og listsköpunar hefur hún undanfarin sjö ár unnið að því að skrifa yfirgripsmikla bók um vefnað á Íslandi. Til að byrja með var bókin hugsuð sem kennslubók en eins og oft er með slík hugverk hefur hún stækkað að umfangi í meðförum höfundar. „Þetta hefur þróast út í það að vera heildstætt yfirlitsrit um vefnað á Íslandi frá landnámi og til vorra daga. Sigrún Blöndal á Hallormsstað skrifaði kennslubók um vefnað árið 1948 en síðan hefur ekki verið gefið út fræðiefni um vefnað á Íslandi. Elsa Guðjónsson, búningahönnuður og útsaumari, var menntuð í þeim fræðum og skrifaði ýmislegt um það svið. Það hef ég allt saman lesið og síðan hef ég stundað eigin rannsóknir á íslenskum vefnaði. Ég hef farið í Grágás, Njálu og allar frumheimildir þar sem um vefnað er talað á fyrstu öldum Íslands byggðar. Í fleiri hundruð ár var allt mælt í álnum, sem segir sína sögu. Það má á vissan hátt segja að þessum hluta af okkar menningararfi hafi verið stungið undir stól og ég lít því á að með því að koma þessu saman á einn stað sé verið að bjarga ákveðnum menningarverðmætum.“

Ragnheiður segist hafa lokið við að skrifa bókina og nú sé hún í yfirlestri. Mikið verður um myndefni í bókinni, bæði ljósmyndir og skýringarmyndir. Ljóst er að bókin verður mikil að vöxtum, enda miklu af dýrmætum upplýsingum um þjóðararfinn safnað saman á einn stað. Ragnheiður treystir sér ekki til þess að segja til um hvenær bókin komi út en Forlagið mun gefa hana út og hefur nú þegar fengið til þess styrk.

Kljásteinavefnaður á Hólum
Ragnheiður segir ánægjulegt að fullt sé á námskeið sem hún og Guðrún Hadda Bjarnadóttir haldi um næstu helgi í Auðunastofu á Hólum í Hjaltadal í fornum aðferðum við vefnað á Íslandi – þ.e. í svokölluðum kljásteinavefstað. „Fornverkaskólinn í Skagafirði lét gera einn vefstað og til viðbótar erum við búnar að fá vefstæði lánuð fyrir námskeiðið, annars vegar frá Minjasafninu á Akureyri og hins vegar frá Hildi Hákonardóttur. Þessi aðferð við vefnað er ótrúlega einföld og alveg bráðskemmtileg. Þessi tækni hefði auðvitað ekki lifað í níu þúsund ár á jörðinni ef hún hefði ekki verið einföld og staðist tímans tönn,“ segir Ragnheiður.

Heiðursviðurkenning Guðmundar Ármanns
Annar kennari við listnámsbraut VMA, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, hlaut heiðursviðurkenningu Akureyrarstofu á sumardaginn fyrsta fyrir framlag sitt til menningarmála á Akureyri í gegnum tíðina. Guðmundur Ármann var fyrir nokkuð mörgum árum útnefndur bæjarlistamaður á Akureyri.

Guðmundur Ármann varð sjötugur í janúar sl. og þá hætti hann kennslu við VMA eftir fjórtán ára starf. Hann var þó stundakennari núna á vorönn, en hættir alfarið kennslu að loknu þessu skólaári. Hann segist afar sáttur á þessum tímamótum og sé stoltur af því að hafa kennt þessi ár við listnámsbraut VMA og fengið tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu og mótun brautinnar.  Núna, þegar rýmri tími gefist, segist Guðmundur Ármann einbeita sér að sinni eigin listsköpun, hans bíði mörg verkefni á því sviði. Hugmyndirnar sem hann vilji vinna úr séu óteljandi. Og núna þegar sól hækkar á lofti getur Guðmundur Ármann einnig sinnt öðru hugðarefni sínu, sem er stangveiði. Í þeim efnum segir hann að sé áhugavert sumar framundan.

Arna vinnur verk fyrir sýningu
Enn einn kennarinn við listnámsbrautina, Arna Guðný Valsdóttir, sinnir nú list sinni, myndlistinni, af fullum krafti.  Hún fékk sex mánaða listamannalaun nýverið og nýtir þau þessa dagana til þess að vinna að listsköpun sinni fyrir sýningu í Listasafninu á Akureyri.