Fara í efni

Vandræðaskáldin með þriðjudagsfyrirlestur

Vandræðaskáldin Sesselja og Villi.
Vandræðaskáldin Sesselja og Villi.

Í dag, þriðjudaginn 2. Mars, kl. 17:00-17:40 halda Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Að virkja listina og skáldskapinn til vandræða. Þar munu þau fara yfir ferilinn sem listamenn, samstarf Vandræðaskálda og gefa almenn heilræði um að sá vandræðum og óskunda í tali og tónum. Fyrirlesturinn er í röð þriðjudagsfyrirlestra í vetur sem að standa Listasafnið á Akureyri, VMA, Gilfélagið og Myndlistarfélagið á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.

Vandræðaskáldin Sesselja og Vilhjálmur Bergmann hafa starfað saman í rúm 5 ár og vakið mikla athygli fyrir kolsvart skopskyn sitt og hárbeittan húmor. Á samfélagsmiðlum hefur lögum þeirra verið streymt oftar en milljón sinnum auk þess sem þau hafa komið fram sem skemmtikraftar og veislustjórar um allt land. Rætur þeirra beggja liggja í leikhúsinu og þar hafa þau starfað samhliða vandræðunum. Vandræðaskáldinvinna bæði í atvinnuleikhópnum Umskiptingum, en báðar sýningar hópsins hafa hlotið tilnefningar til Grímuverðlauna.

Vilhjálmur B. Bragason tók MA próf í leiklist af sviðshöfundbraut RADA (Royal Academy of Dramatic Art) í London. Hann hefur skrifað leikrit, leikið, spilað og starfað sem skemmtikraftur og var leikrit hans, Afhending, það fyrsta til að hljóta nýræktarstyrk íslenskra bókmennta. Sem meðlimur Umskiptinga kom Vilhjálmur að því að semja Framhjá rauða húsinu og niður stigann og Galdragáttina auk þess að leika burðarhlutverk í báðum sýningum. Vandræðskáld sömdu jafnframt öll lög sem flutt voru í því síðarnefnda. Um þessar mundir leikur Vilhjálmur í grínsýningunni Fullorðin hjá Leikfélagi Akureyrar.

Sesselía Ólafsdóttir lærði leiklist og leikstjórn í leiklistarskólanum KADA í London. Hún útskrifaðist 2012 og hefur frá útskrift leikið í kvikmyndum og á sviði, bæði á Íslandi og erlendis. Þar ber helst að nefna The CircleFangaSjeikspír eins og hann leggur sig og Galdragáttina. Hún hefur samið handrit fyrir og leikstýrt tveimur stuttmyndum, en önnur þeirra, Betur sjá augu, fer á kvikmyndahátíðir í ár og hin, Umskipti / Turn, hefur hlotið tvenn verðlaun: Frostbiter – besta íslenska hrollvekjan og Méliès d‘Argent 2019 – Best European Short. Sesselía er einn af stofnendum leikhópsins Umskiptinga, en undir þeirra formerkjum hefur hún verið í höfundateymi revíu, einleiks og tveggja leikrita, nú síðast í Galdragáttinni og Þjóðsögunni sem gleymdist.