Fara í efni

Valin til að keppa á Special Olympics í Abu Dhabi

Arndís Atladóttir.
Arndís Atladóttir.

Það voru heldur betur áægjulegar fréttir sem Arndís Atladóttir, sautján ára sundkona og nemandi á starfsbraut VMA, fékk á dögunum. Hildur Friðriksdóttir formaður Sundfélagsins Óðins og Dýrleif Skjóldal (Dilla) sundþjálfari heimsóttu Arndísi og færðu henni þau tíðindi að hún hefði verið valin til þess að keppa fyrir Íslands hönd í sundi á Special Olympics leikunum sem fara fram í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum að rösku ári liðnu, dagana 14. til 21. mars 2019. Fyrirvarinn er því langur, sem er mjög fínt því nú hefur Arndís góðan tíma til þess að undirbúa sig vel fyrir leikana.

Þegar við hittum Arndísi að máli í VMA var hún að vonum vart komin niður á jörðina, tíðindin hafi verið svo óvænt og ánægjuleg. Hún orðaði það svo að hún hefði verið “rosalega glöð” þegar Hildur og Dilla sögðu henni tíðindin í síðustu viku. Enda er full ástæða til, ekki er á hverjum degi sem tækifæri gefst til þess að fara til Mið-Austurlanda og taka þátt í svo stórum íþróttaviðburði sem Special Olympics sannarlega er.

Að vera valin til þess að keppa á Special Olympics er sannarlega mikil viðurkenning fyrir góðan árangur og ástundun á síðustu árum en Arndís segist hafa byrjað að synda sjö ára gömul. Hún hefur auðvitað keppt á fjölmörgum mótum, fyrst og fremst hér innanlands, þar á meðal á árlegu nýársmóti fatlaðra í Reykjavík í upphafi árs, en einnig utan landssteinanna, síðast í Malmö í Svíþjóð fyrir skömmu. 

Arndís æfir þrisvar í viku – mánudaga, miðvikudaga og föstudaga – undir stjórn þjálfara síns, Laufeyjar Huldu Jónsdóttur.