Fara í efni

Útskriftarnemar í rafvirkjun kynna lokaverkefni sín

Útskriftarnemar í heimsókn á Þeistareykjum.
Útskriftarnemar í heimsókn á Þeistareykjum.

Það líður að annarlokum, síðasti kennsludagur verður nk. fimmtudagur og á föstudaginn verður námsmatsdagur. Haustannarpróf hefjast síðan að viku liðinni. Eins og vera ber er í mörg horn að líta hjá bæði nemendum og kennurum við að ljúka öllu því sem þarf að ljúka. Útskriftarnemendur, þ.e. nemendur sem útskrifast fyrir jól, þurfa í mörgum tilfellum að skila lokaverkefnum. Það á til dæmis við um nemendur í rafvirkjun sem útskrifast núna í desember og hafa valið að fara í náminu svokallaða skólaleið. Þeir nemendur sem velja að fara skólaleið eru einni önn lengur í skólanum en nemendur sem fara samningsleið og er lokaverkefni punkturinn yfir i-ið í námi þeirra í VMA. Lokaverkefnin verða kynnt í dag, mánudag, kl. 13 í stofu C3. Áhugasamir eru boðnir velkomnir á kynninguna.

Þessir sömu útskriftarnemendur hafa að undaförnu sótt heim nokkur fyrirtæki til þess að kynna sér fjölbreytta starfsemi þeirra og safna fróðleik í upplýsingabankann. Farið var í heimsóknir í Útgerðarfélag Akureyringa, Þeistareykjarvirkjun og Glerárvirkjun, sem nýlega var opnuð. Allar þessar heimsóknir tókust afar vel og voru hinar fróðlegustu í alla staði, að sögn Óskars Inga Sigurðssonar, brautarstjóra rafiðna, sem tók þessar myndir  í heimsóknunum.