Fara í efni

Útrás gefur málmiðnaðarbraut VMA plasmaskurðarvél

Fulltrúar Útrásar ehf., kennarar og nemendur.
Fulltrúar Útrásar ehf., kennarar og nemendur.

Kennarar og nemendur í blikk- og stálsmíði á málmiðnaðarbraut tóku á móti höfðinglegri gjöf frá Útrás ehf. á Akureyri sl. föstudag. Um er að ræða Hypertherm Powermax 30XP plasmaskurðarvél sem nýtist sérstaklega vel fyrir lengra komna nemendur í stál- og blikksmíði.

Þessi tækni, sem byggir á rafmagni og lofti, hefur smám saman verið að ryðja sér til rúms og kemur í stað skurðar með gasi og súr. Fyrst og fremst kemur plasmaskurðarvélin sér að góðum notum í skurði á 3-6 mm þykku efni. Með vélinni er einnig hægt að skera ryðfrítt efni sem ekki er unnt með gömlu aðferðinni, gasi og súr. Og sömuleiðis sker hún ál. Skurður með plasmaskurðarvélinni tekur skemmri tíma og er á allan hátt auðveldari og þægilegri.

Sigurður Ringsted, framkvæmdastjóri Útrásar, segir mikilvægt að styðja við starf málmiðnaðarbrautar „enda býr hún til mannskapinn fyrir okkur,“ segir hann og bætir við að nauðsynlegt sé fyrir nemendur að eiga þess kost að vinna með og læra á besta mögulegan vélbúnað til þess að vera vel undirbúnir og þjálfaðir þegar út á vinnumarkaðinn er komið.

Fyrirtækið Útrás ehf. var stofnað árið 1993 og er því 26 ára á þessu ári. Í upphafi var áhersla þess á ráðgjafar- og hönnunarverkefni en frá 2005 hefur það einnig rekið smiðju í málmiðnaði. Fimmtán til sautján starfsmenn eru hjá Útrás og eru verkefnin af ýmsum toga. Síðustu ár hefur fyrirtækið m.a. unnið margvísleg verkefni fyrir Landsvirkjun, t.d. við hina nýju gufluaflsstöð á Þeistareykjum. Útrás hefur nýverið smíðað göngubrú yfir stíflu Glerárvirkjunar og sem stendur er fyrirtækið m.a. að smíða ýmislegt í nýja hreinsistöð fráveitu fyrir Norðurorku í Sandgerðisbót.

Kennarar við málmiðnaðarbraut VMA vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til Útrásar fyrir þessa góðu gjöf sem nýtist nemendum afar vel. Dýrmætt sé fyrir brautina að eiga að öfluga bakhjarla sem vilji leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að styrkja og efla nám á málmiðnaðarbrautinni.

Á þessum myndum má sjá Kristján Kristinsson, kennara við málmiðnaðarbraut þakka Sigurði Ringsted, framkvæmdastjóra Útrásar, fyrir gjöfina. Á hópmyndinni eru þrír fulltrúar Útrásar, Sigurður Ringsted, Gunnar Óli Vignisson og Einar Þór Kjartansson, kennararnir Kristján Kristinsson og Hörður Óskarsson og nemendur í stál- og blikksmíði.