Fara í efni

Árni Jóhannsson - Kveðja frá VMA

Kveðja frá Verkmenntaskólanum á Akureyri

Í dag kveðjum við kæran félaga, Árna Jóhannsson. Hann laut í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi og engan grunaði fyrir fáum vikum hversu langt hann var leiddur. Árni hafði ekki hátt um líðan sína en hann hafði áður þurft að heyja baráttu við vágestinn, jafnvel án þess að nánustu samstarfsmenn vissu af. Hann vildi ekki valda okkur áhyggjum, lét lítið fyrir sér fara. Engu að síður var hann félagslyndur og naut þess að eiga stundir með samstarfsfólki og vinum hvenær sem færi gafst. Hann var frábær kennari; og skipti ekki máli hvort hann var að kenna nýnemum stærðfræði eða brautskráningarefnum í rafeindavirkjun um innstu rök hátækninnar. Nemendum þótti vænt um hann og honum tókst að laða fram hæfileika þeirra með hæglæti sínu en samt ákveðni. Sitthvað í Bókinni um veginn kemur heim og saman við þætti í fari Árna, sem vann verk sín í hljóði og þyrlaði ekki upp ryki. Honum lá lágt rómur en gat hækkað hann ef á þurfti að halda. Hann hafði sterkar skoðanir þó að hann bæri þær ekki alltaf á torg en var engu að síður ófeiminn við að taka til máls ef svo bar undir. Honum voru falin trúnaðarstörf á ýmsum vettvangi og reyndist ötull málsvari. Hæfileikar hans voru á mörgum sviðum; knattspyrnu, bridgespilamennsku, bassaleiks með kennarabandinu, silungs- og laxveiði, fluguhnýtinga og undir það síðasta; golfíþróttarinnar, og hvarvetna náði hann árangri. Hann barði sér ekki á brjóst en var ötull að rétta öðrum hjálparhönd. Hann átti gott með að njóta þegar næði gafst og hlustaði mikið og pældi í tónlist og var vel að sér í tónbókmenntum ýmissa tíma. Hann var menntaður maður í víðum skilningi.
Umfram allt var Árni góður félagi. Við hér á Eyrarlandsholtinu, samstarfsfólk og nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri, kveðjum hann með söknuði og þakklæti.

Hjalti Jón Sveinsson,
skólameistari Verkmenntaskólans á  Akureyri