Fara í efni

Úr skónum í Mössubúð í málminn í VMA

Íris Arngrímsdóttir í málmiðnaðarsalnum í VMA.
Íris Arngrímsdóttir í málmiðnaðarsalnum í VMA.

Því verður ekki neitað að í sumum námsgreinum eru konur meira áberandi en karlar og öfugt. Ein af þeim námsbrautum þar sem karlarnir hafa í gegnum tíðina verið í miklum meirihluta eru málmiðngreinar. Sem betur fer eru þó alltaf konur sem láta sér þetta viðhorf sem vind um eyru þjóta og sigla gegn straumnum. Nú eru nokkrar konur í grunndeild málmiðnaðar og ein þeirra er Íris Arngrímsdóttir, 24 ára gömul frá Granastöðum í Út-Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún segir að það sé einfaldlega rangt að málmiðngreinar séu ekki fyrir konur. Hún stefnir ótrauð á að útskrifast af vélstjórnarbraut.

Það má kannski segja að Íris hafi farið eilítið óhefðbundna leið að því að ljúka námi í vélstjórn sem hún stefnir á árið 2017. Hún hóf nám  í VMA árið 2005 og lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut árið 2009. Siðan varð nokkurra ára uppihald í skólagöngunni og var hún meðal annars verslunarstjóri í þrjú ár í skóversluninni Mössubúð á Glerártorgi. En þó svo að Írisi hafi þótt það starf áhugavert blundaði alltaf í henni að láta gamlan draum rætast. Hún innritaði sig því í VMA um síðustu áramót og tók nokkra vélstjórnaráfanga til þess að undirbúa sig fyrir nám í vélstjórn. Síðan lá leiðin í grunndeild málmiðnaðargreina sl. haust en henni þarf Íris að ljúka áður en hún hellir sér af fullum krafti í vélstjórnarnámið.

„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og kennararnir eru frábærir og það sama má segja um félagsskapinn hérna. Þetta er mjög heimilislegt,“ segir Íris. „Það er mikill misskilningur að málmiðnaður og vélstjórn séu karlastörf. Þetta nám er ekkert síður fyrir konur. En einhverra hluta vegna eru konur eitthvað hræddar við þetta. Margir hafa þá ímynd af vélstjórninni að hún gefi aðeins möguleika á því að vera vélstjóri á sjó en það er alls ekki rétt. Vélstjórnarnám gefur mikla möguleika á ýmsum spennandi störfum í landi,“ segir Íris og bætir við að hún hafi þreifað á sjómennsku sl. sumar. „Ég prófaði að fara sem kokkur og messi á Samherjaskipið Kristínu. Það var fáránlega gaman.“

Írís á raunar ekki langt að sækja þessi gen því  bróðir hennar, Óðinn Arngrímsson, lauk vélstjórnarnámi í VMA sl. vor og faðir hennar, Arngrímur Páll Jónsson, rekur ásamt Eiði bróður sínum Vélaverkstæðið í Árteigi í Kinn sem er m.a. þekkt fyrir framleiðslu á túrbínum fyrir smávirkjanir.

Hér má sjá nokkrar myndir sem voru teknar í kennslustund í grunndeild málmiðnaðarbrautar.