Úr listinni í eldamennskuna
„Í þessu verki sem ég kalla Von og örvænting leitast ég við að draga fram þá góðu hluti sem ég hef upplifað og einnig erfiðari hluti,“ segir Áskell Alexander Alegre, sem lýkur námi af listnáms- og hönnunarbraut síðar í þessum mánuði. Akrílverk eftir hann hangir nú uppi gegnt austurinngangi skólans. Annað verk eftir Áskel var á lokaverkefnasýningu brautskráningarnema í Hofi sem lauk í gær. Hann segist hafa notið listnámsins mjög, sumt hafi verið nokkuð snúið eins og til dæmis módelteikningin en annað hafi verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt eins og t.d. málun og listasagan.
Foreldrar Áskels komu til Íslands frá Perú og er hann fæddur hér. Faðir hans býr á Akureyri en móðir hans í Perú. Í þrígang segist Áskell hafa farið til Perú til þess að hitta ættingja og kynnast menningu landsins, sem hann segir að sé á margan hátt mjög frábrugðin Íslandi.
Áskell er að útskrifast í annað skipti frá VMA því hann lauk námi af starfsbraut skólans og innritaðist í kjölfarið á listnáms- og hönnunarbraut. Hann ætlar ekki að láta staðar numið því í haust hyggst hann hefja nám í grunndeild matvælabrautar og segist hafi áhuga á því að verða matreiðslumaður. Lengi hafi hann fengist við að elda og það heilli hann að læra meira á því sviði. Matvælabrautinni kynntist Áskell vel þegar hann var á starfsbraut því þá tók hann nokkra áfanga í heimilisfræði og þekkir því vel til hennar. Áskell segist kunna vel við sig í eldhúsinu, til hliðar við námið í VMA segist hann starfa í hlutastarfi á veitingastaðnum Greifanum, á kvöldin og um helgar, og í sumar verði hann þar í fullri vinnu.