Fara í efni

Úr húsasmíðinni í Kex Studio

Ylfa Rún Arnarsdóttir við verslunina Kex Studio að Týsnesi 14 á Akureyri.
Ylfa Rún Arnarsdóttir við verslunina Kex Studio að Týsnesi 14 á Akureyri.

Það er alltaf í senn forvitnilegt og skemmtilegt að fylgjast með því sem fyrrverandi nemendur skólans taka sér fyrir hendur að námi loknu. Vorið 2023 brautskráðist Akureyringurinn Ylfa Rún Arnarsdóttir sem húsasmiður og stúdent frá VMA og nokkrum vikum síðar tók hún að sér hlutverk fjallkonunnar á 17. júní hátíðarhöldunum á Akureyri.

Í viðtali hér á heimasíðunni í febrúar 2022, í miðjum Covid-faraldri, sagðist Ylfa stefna á að læra arkitektúr í framtíðinni og núna, þremur og hálfu ári síðar, útilokar Ylfa ekki að svo verði mögulega raunin einhvern tímann síðar. En sem stendur er hún frumkvöðull og hefur opnað verslun á Akureyri með vinukonu sinni þar sem meðal annars eru seld notuð föt.

Að loknu námi í VMA 2023 lá leið Ylfu til Bandaríkjanna þar sem hún var m.a. að passa börn í tæp tvö ár. Kom heim undir lok síðasta árs og fór út á vinnumarkaðinn í nokkra mánuði. Í apríl sl. fengu Ylfa og vinkona hennar, Sóley Eva Magnúsdóttir, þá hugmynd að setja á stofn lítið fyrirtæki sem m.a. seldi notuð föt, svokölluð „vintage“ fataverslun. Þær útfærðu hugmyndina nánar og fóru með hana til Driftar EA – miðstöðvar frumkvöðla og nýsköpunar. Til þess að gera langa sögu stutta fór hugmyndin í gegnum hin ýmsu nálaraugu Driftar og var ein átján verkefna sem fór í svokallaða Slipptöku í júní sl. og núna á haustdögum var það valið eitt af sjö verkefnum sem var valið áfram í Hlunninn sem þýðir að starfsfólk Driftar mun verða fyrirtæki þeirra vinkvenna innan handa með sérfræðiaðstoð næsta árið.

Þannig lýsir Drift EA verkefni Ylfu Rúnar og Sóleyjar Evu:

Kex er meira en bara vintage fataverslun. Hér ætla vinkonurnr Ylfa Rún Arnarsdóttir og Sóley Eva Magnúsdóttir að skapa rými þar sem sjálfbærni og skapandi samfélag eiga heimahöfn. Boðið verður upp á fjölbreytt úrval af vönduðum notuðum flíkum og vettvang fyrir skapandi hugmyndir, viðburði og tengslamyndun.

Nafnið á verkefninu var upphaflega Kex Creative Studio en er nú til einföldunar Kex Studio. Hægt er að fylgjast á samfélagmiðlum, t.d. á Instram - instagram.com/kexstudio – og Facebook með því sem þær stöllur eru að gera og hafa verið að gera í aðdraganda að opnun verslunar Kex Studio að Týsnesi 14 á Akureyri 13. september sl. Þessar myndir voru teknar á opnuninni og af þeim vinkonunum. Ylfa segir að smíðakunnáttan hafi nýst heldur betur vel þegar þær voru að standsetja iðnaðarbilið í Týsnesi og breyta því í verslun, meðal annars hafi hún smíðað afgreiðsluborðið, sett upp hillur og fleira.

Ylfa segir að þær vinkonurnar hafi talið að þörf væri fyrir slíka fataverslun í bænum og því hafi þær ákveðið að slá til – og sameina þannig þetta áhugamál og vinnu. Vissulega séu verslanir í bænum með notuð föt en verslun þeirra sé af öðrum toga. Bæði verði til sölu fatnaður sem þær kaupi erlendis frá og einnig muni þær nýta fatnað hér heima sem passi inn í þeirra vörulínu. Slíkar verslanir segir Ylfa að séu á höfuðborgarsvæðinu, t.d. Spúútnik og Gyllti kötturinn, og þær séu í mikilli sókn út um allan heim, sérstaklega kjósi ungt fólk slík föt.

Auk fata verður handverk til sölu í búðinni og einnig er ætlunin að bjóða upp á viðburði og kynningar á listamönnum. Til dæmis eru nú til sölu verk eftir Núma Kristínarson sem stundar nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA.

Verslunarreksturinn og allt sem honum tengist er, í það minnsta enn sem komið er, hlutastarf Ylfu Rúnar og Sóleyjar Evu til hliðar við 45% vinnu beggja á sambýli á Akureyri. Verslun þeirra, Kex Studio, í Týsnesi er opin frá miðvikudegi til föstudags kl. 15 til 20 og á laugardögum kl. 12 til 18.