Fara í efni

Úr 45 stiga hita í Rabat í fannfergið á Akureyri

Yassine Derkaoui.
Yassine Derkaoui.

Í október 2016 kom Marokkobúinn Yassine Derkaoui, sem er tvítugur, til Íslands. Hann hafði engin tengsl við landið en hafði aflað sér upplýsinga á netinu. Hann rifjar upp að ásamt vini sínum hafi hann farið frá Marokko til Spánar og ferðast um Evrópu í lest. Í Danmörku hafi þeir farið um borð í Norrænu og siglt til Íslands og hér er Yassine enn og hefur ekki í hyggju að snúa í bráð til Marokko. Vinur hans býr nú í Englandi. Á Íslandi segist Yassine finna til öryggis og hér hyggst hann ljúka námi sínu í hársnyrtiiðn, sem hann stundar í VMA.

„Ég kom til Íslands til þess að hefja hér nýtt líf og mennta mig. Ég vissi að hér væri ekki margt fólk og það heillaði mig. Ég kem frá höfuðborginni Rabat, þar sem búa milljónir manna,“ segir Yassine. Faðir hans býr í Marokko en móðir og bróðir í Saudi-Arabíu. „Ég upplifi Ísland sem öruggt land, öfugt við Marokko,, sem er öruggt land fyrir þá efnameiri, ekki aðra. Þar eru mútur vel þekkt fyrirbæri, fólk kemst áfram og á kost á t.d. heilbrigðisþjónustu, ef það á peninga,“ segir Yassine.

„Íslendingar hafa verið mér mjög hjálplegir og þetta samfélag er rólegt og lítið stress. Veðrið hefur ekki verið vandamál fyrir mig, mér líkar það betur en hitinn í Marokko, þar sem hann getur farið upp í 45 stig. Ég kann vel við mig á Akureyr. Hér er meiri snjór en í Reykjavík en ekki eins mikil rigning og ekki eins vindasamt,“ segir Yassine.

Áður en Yassine kom til Íslands hafði hann tekið fyrstu skrefin í hársnyrtiiðn. Hann hafði að vísu ekki lært fagið í skóla en fékk að grípa í skærin á rakarastofu í Rabat. Hann fékk einungis að klippa karlmenn – þar í landi klippa karlar kynbræður sína og konur klippa konur. Svo einfalt er það. Það er þó ekki bannað að karlar snyrti hár kvenna en slíkt segir Yassine litið hornauga í Marokko.

Ensku lærði Yassine ekki í heimalandinu og því hefur hann lagt mikið á sig til þess að læra íslensku. Hann skilur hana og talar ótrúlega vel miðað við að hafa verið á Íslandi í skamman tíma og koma frá landi með gjörólíkt tungu- og skrifmál. Til að byrja með bjó Yassine um tíma á Reyðarfirði, síðan lá leiðin til Reykjavíkur, þá vestur á firði og þar bjó Yassine í Bolungarvík í eitt ár og stundaði nám við Menntaskólann á Ísafirði. Frá Ísafirði flutti Yassine til Akureyrar og fór í Verkmenntaskólann. Fyrst var hann í almennum fögum en sl. haust hóf hann nám í hárgreiðsluiðn. Yassine segist mjög ánægður í náminu í VMA og hefur tekið stefnuna á að ljúka því og taka sveinspróf.