Fara í efni

Unnið með litun og þrykk

Litamynstur mótað ofan á carrageenan vökva.
Litamynstur mótað ofan á carrageenan vökva.

Litun og þrykk er heiti áfanga á textíllínu myndlistar- og hönnunarbrautar VMA. Eins og nafn áfangans gefur til kynna er m.a. farið í mismunandi þrykk og litunaraðferðir og ýmsum tólum og tækjum beitt. Borghildur Ína Sölvadóttir kennari segir þennan áfanga mjög mikilvægan og góðan grunn fyrir nemendur og ýmsar aðferðir og leiðir sem kynntar séu í honum nýtist þeim áfram í náminu, í lokaverkefni og listsköpun í framtíðinni.

Þegar litið var inn í kennslustund til Borghildar Ínu og nemenda hennar í Litun og þrykki var glímt við mörg skemmtileg form og mynstur til þess að þrykkja á efni. Undirspilið kom úr viðtækjunum í formi Abba-slagara og nemendur söngluðu með. Skemmtilegt og skapandi andrúmsloft.  

Í kennslustundinni voru m.a. gerðar tilraunir með carrageenan vökva. Hann settur í bakka og allskyns litamynstur mótuð með litum. Síðan var tauið sett ofan í bakkann og viti menn, árangurinn birtist í formi undurfallegra litamynstra. 

Það er sem sagt hægt að fara ótal margar leiðir við að búa til liti og þrykkja á bómull eða léreft. Ólíkum aðferðum og leiðum kynnast nemendur í þessum áfanga og skyggnast einnig inn í heim tölvunnar og Fab Lab smiðjunnar, sem gefur ýmsa skemmtilega möguleika.