Fara í efni

Unnið að listsköpun með hanska og grímu

Unnið að listsköpun með kolum.
Unnið að listsköpun með kolum.

Í skólastarfi með hertum sóttvarnareglum, sem nú eru í gildi, er skólastarfið vitanlega með öðrum hætti en venja er til. Eins og oft hefur komið fram hefur stór hluti bóklegs náms flust úr staðnámi í fjarnám en áhersla hefur verið lögð á að fyrsta árs nemar geti komið í skólann, í það minnsta að hluta til, og það sama á við um verknámsnema.

Fyrsta árs nemum á listnáms- og hönnunarbraut þykir kærkomið að komast í skólann og vinna að listsköpun, eftir sem áður. Aðstæðurnar eru vissulega breyttar, nemendahópunum þarf að deila niður í fleiri rými til þess að unnt sé að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu, eins og reglugerð heilbrigðisráðuneytisins kveður á um. Og sóttvarnareglum er að öðru leyti fylgt frá a til ö, nemendur spritta fyrir og eftir kennslustundirnar og setja á sig hanska. Allt er gert til þess að fyrirbyggja kórónuveirusmit.

Nemendur hafa fengist við listsköpun af ýmsum toga, þrátt fyrir covid. Hér eru nemendur t.d. að vinna með kol en önnur tækni var notuð í þessum andlitsmyndum og í hér er dæmi um allt aðra listsköpun. Nemendur og kennarar horfa fram á veginn, þrátt fyrir þrengingar af völdum covid 19, minnugir þess að alltaf birtir til eftir él. Spurningin er bara hvenær.