Fara í efni

Ung að árum í vaskinum!

Ellen Guðmundsdóttir 45 ára og 7-8 mánaða.
Ellen Guðmundsdóttir 45 ára og 7-8 mánaða.
Mynd vikunnar á Ellen Guðmundsdóttir, 45 ára gömul húsmóðir á Akureyri, sem útskrifaðist af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í desember sl. Myndin er unnin í akríl og heitir Æskan, sem vísar til þess að hér er listakonan að mála sig sjálfa unga að árum.

Mynd vikunnar á Ellen Guðmundsdóttir, 45 ára gömul húsmóðir á Akureyri, sem útskrifaðist af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í desember sl.  Myndin er unnin í akríl og heitir Æskan, sem vísar til þess að hér er listakonan að mála sig sjálfa unga að árum.

„Ég er þriggja barna móðir, fædd og uppalin í Stórholti 4 á Akureyri. Ég byrjaði í námi hér fyrir margt löngu, árið 1986, en hætti þá og gerðist húsmóðir. Kom síðan aftur hingað og innritaðist á listnámsbrautina og hafði verið þar í tvö ár þegar hárgreiðslubrautin hóf sína starfsemi. Ég færði mig yfir á hana, enda hafði ég átt mér þann draum síðan á unglingsárum að verða hárgreiðslukona. Ég varð hins vegar að hætta í hárgreiðslunni vegna þess að ég er gigtveik og gigtin gerði það að verkum að ég get ekki staðið lengi. Ég færði mig því aftur yfir á listnámsbrautina og lauk því námi um síðustu jól. Lokaverkefni mitt gerði ég úr mannshárum, sem var stórt og mikið verkefni og tók mig þrjá mánuði að vinna. Ég blandaði saman litum og hárum og útkoman var það sem ég kalla hárverk.
Sem krakki var ég oft á heimili Jóseps Kristjánssonar í Sandvík í Þorpinu og horfði tímunum saman á hann mála. Litirnir heilluðu mig því snemma.
Ég skal viðurkenna það að mér fannst töluvert mikið átak að fara aftur í skóla eftir langt hlé, það var erfitt að læra að læra á nýjan leik. Ég var oft eins og mamman í bekknum og sömuleiðis var ég oft eldri en kennararnir. En það skipti mig engu máli. Sennilega þótti krökkunum mínum erfiðast að vera í sama skóla og mamma! En mér fannst alveg æðislegt að vera hér í VMA og þó að skammt sé liðið frá því ég brautskráðist fæ ég heimþrá að koma aftur í skólann núna,“ segir Ellen.

Um akrílmynd Ellenar sem nú hangir uppi við austurinngang VMA segir hún: „Ég fann gamla filmu hjá pabba og á henni var mynd af mér sjö eða átta mánaða í vaskinum heima. Þegar ég var í ljósmyndaáfanganum hjá Véronique sýndi ég henni filmuna og bætti því við ég hefði hug á því að framkalla filmuna. Véronique taldi ólíklegt að hægt væri að framkalla svo gamla litfilmu en ég hætti ekki fyrr en það tókst. Ég var síðan með þessa mynd hjá mér í langan tíma. Þegar síðan kom að því að vinna akrílverk í þessum áfanga á haustönninni varð það úr að ég ákvað að mála mynd þar sem ég hefði ljósmyndina af mér til hliðsjónar og þetta er útkoman.“