Fara í efni

Undirstöðurnar gerðar klárar

Einbeittir nemendur í byggingadeild.
Einbeittir nemendur í byggingadeild.

Á hverju skólaári fá nemendur í byggingadeild, að lokinni grunndeild, það verðuga verkefni að byggja sumarhús. Þetta árlega verkefni veitir nemendum innsýn í fjölmargt í byggingu timburhúsa og er þeim jafnan dýrmætt veganesti þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Núna strax í byrjun haustannar hófst bygging hússins og er auðvitað hugað að undirstöðunum fyrst, áður en bygging hússins hefst úti. Hér eru nokkrir nemendur að smíða undirstöður sumarhússins, undir styrkri stjórn Jóhanns H. Þorsteinssonar kennara. Ríflega tuttugu nemendur munu í vetur glíma við þetta verkefni í tveimur hópum.

Vorið 2020 voru nemendur komnir vel á veg með stórt og veglegt sumarhús þegar Covid faraldurinn skall á. Vegna hans reyndist ekki unnt að ljúka við húsið þá um vorið en skólaárið 2020-2021 luku nemendur við húsið og gerðu gott betur því þeir byggðu tvö smáhýsi til viðbótar. Öll þessi þrjú hús hafa verið seld og því er hafin bygging nýs sumarhúss sem verðandi húsasmiðir einbeita sér að í vetur. Húsið er tæplega sextíu fermetrar að grunnfleti með stofu, eldhúsi, tveimur svefnherbergjum og salerni/þvottahúsi. Svefnloft verður í hluta hússins. 

Hér á heimasíðunni verður fylgst með byggingu hússins og sýndar myndir af því eftir því sem byggingunni vindur fram.