Fara í efni

Undirbúningur árshátíðar í fullum gangi

Hljómsveitin Gus Gus mætir á árshátíð VMA.
Hljómsveitin Gus Gus mætir á árshátíð VMA.

Eftir tæpan  hálfan mánuð, föstudagskvöldið 6. mars, verður árshátíð nemenda VMA í Íþróttahöllinni  og eins og vera ber verður mikið um dýrðir. Undirbúningur hátíðarinnar er í fullum gangi enda í mörg horn að líta. Árshátíðin er smám saman að taka á sig mynd og línur skýrast enn frekar í þessari viku.

Nú þegar hefur komið fram að hljómsveit kvöldsins verður engin önnur en Gus Gus en langt er síðan hún hefur komið fram á Akureyri og var því sannarlega tími til kominn að hún myndi stíga á stokk hér í bæ. Það hefur líka komið fram að veislustjórar kvöldsins verða fjörkálfarnir Gunnar Helgason og Felix Bergsson – Gunni og Felix.

Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, segir undirbúning fyrir árshátíðina í fullum gangi á mörgum vígstöðvum. Fjöldi nemenda skólans mun sjá um skemmtiatriði af öllum stærðum og gerðum – m.a. leikatriði, söngatriði – t.d. þrjú bestu atriðin í Söngkeppni VMA - og allt þar á milli. Og kennaragrínið árlega verður heldur betur á sínum stað, enda hefur vaskur hópur nemenda unnið að því hörðum höndum í allan vetur að taka upp myndabúta í kennaragrínsmyndbandið. Mikill metnaður í gangi í þessu eins og venjulega!

Nánari upplýsingar um árshátíðina munu birtast næstu daga og sömuleiðis mun miðasala á þennan stórviðburð í skólalífinu hefjast mjög fljótlega. Verð aðgöngumiða í mat og á dansleik er kr. 7.000 en ef eingöngu er keyptur aðgöngumiði á dansleikinn kostar hann 3.500 kr.