Fara í efni

Undirbúa sig fyrir Gettu betur

Í janúar verður fyrsta umferð í hinni árlegu Gettu betur – spurningakeppni framhaldsskólanna og þar verður VMA að sjálfsögðu með lið. Urður Snædal, þrautreynd í spurningakeppnum, hefur verið fengin til þess að undirbúa VMA-liðið fyrir keppnina.

Á haustdögum var auglýst eftir áhugasömum nemendum til þess að taka þátt í Gettu betur og í framhaldinu voru hinir áhugasömu teknir í forpróf til þess að láta reyna á kunnáttu þeirra. Út frá þessu prófi undirbýr sex manna hópur sig af kostgæfni fyrir fyrstu umferð Gettu betur sem verður í útvarpi dagana 12. til 15. janúar nk. Þrír af þessum sex liðsmönnum munu síðan sitja fyrir svörum í fyrstu viðureigninni í útvarpinu en enn sem komið er liggur ekki fyrir á móti hvaða skóla VMA lendir.

Urður Snædal segir að m.a. vegna prófa gefist knappur tími til undirbúnings fyrir keppnina núna fyrir jólin en þeim mun meiri áhersla verði lögð á hann strax í upphafi nýs árs. „Það sem er mikilvægast að æfa eru hraðaspurningarnar og síðan að ná góðum innbyrðis tengslum í liðinu. Þó svo að undirbúningstíminn sé knappur munum við reyna að gera okkar besta,“ segir Urður en hún er í vetur í liði Akureyrar í Útsvarinu og sömuleiðis hefur hún reynslu úr Gettu betur, veturinn 1998-1999 var hún í liði Menntaskólans á Egilsstöðum sem  komst í átta liða úrslit keppninnar.