Fara í efni

Undirbúa sig fyrir Evrópumót

Á leið á Evrópumót - Guðbjörg Harpa og Ólafur Þór.
Á leið á Evrópumót - Guðbjörg Harpa og Ólafur Þór.

Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir og Ólafur Þór Ólafsson Hjaltín, sem bæði eru í keiludeild Íþróttafélagsins Þórs og jafnframt nemendur í VMA, hafa verið valin í unglingalandsliðið í keilu, sem mun leika á Evrópumóti unglinga í Helsinki í Finnlandi dagana 8.-17. apríl nk. Þetta varð ljóst á dögunum þegar val landsliðsþjálfaranna, Stefáns Claessen og Guðmundar Sigurðssonar, lá fyrir. Átta keilarar skipa unglingalandsliðið, fjórar stúlkur og fjórir piltar. Auk Akureyringanna tveggja er einn frá Akranesi í liðinu og fimm frá Reykjavík.

Þetta er sannarlega eftirtektarverður árangur Guðbjargar Hörpu og Ólafs Þórs því þau hafa einungis æft keilu í um fjögur ár.

Guðbjörg Harpa tók þátt í Evrópumóti ungmenna á síðasta ári en þá fór mótið fram í Egilshöll í Reykjavík. Mótið í Helsinki verður hins vegar fyrsta Evrópumót Ólafs Þórs.

Framundan eru stífar æfingar hjá unglingalandsliðinu undir stjórn þjálfaranna tveggja. Bæði eru Guðbjörg Harpa og Ólafur Þór í svokölluðum afrekshópi Keilusambands Íslands, sem þýðir að þau hafa auk æfinga í keiludeild Þórs verið á sérstökum æfingum undir handleiðslu Guðmundar Sigurðssonar unglingalandsliðsþjálfara.