Fara í efni

Umhverfisvæn hársnyrting - heimsókn á Floke

Dagana 8. - 13. september fór Hildur Salína Ævarsdóttir, kennari af hársnyrtiiðn, í heimsókn til Osló til að kynna sér umhverfisvæna hársnyrtingu. Hildur heimsótti hársnyrtikeðjuna Floke sem rekur 11 umhverfisvænar hársnyrtistofur víðsvegar um Noreg. Elsta stofan sem rekin er undir þessari keðju er 10 ára gömul en hún er staðsett í Voss en Hildur heimsótti útibúið í Osló. Um heimsóknina segir Hildur:

Það er ýmislegt sem við getum tekið okkur til fyrirmyndar í þessum efnum en auðvitað verður ekki öllu umturnað á einu bretti, heldur getum við tekið smá skref í átt til betra vinnuumhverfis fyrir okkur hársnyrta. Mikið brottfall er úr faginu, meðal annars vegna ónæmis og húðsjúkdóma. Það er mín skoðun, að við verðum að byrja á breytingunum í skólanum því það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og því erfiðara að koma breytingum á í vinnuumhverfinu. Það sem við getum gert er að vinna með umhverfisvæna liti sem innihalda ekki efni af svokölluðum bannlista, strípuefni og permanentefni sem fylgja sömu reglum. Vinna síðan með sjampó, hárnæringar og mótunarefni sem fylgja sömu reglum en það er komið töluvert af slíkum vörum á markað í dag. Græn stofa þarf að uppfylla ýmis skilyrði, t.d. þurfa veitingar eins og kaffi að vera umhverfisvænar og mælst er til þess að starfsfólk nýti sér almenningssamgöngur ásamt ýmsu öðru. Ég fékk mjög góðar móttökur á stofunni og hafði gagn af. Svo nú er bara að bretta upp ermar og setja niður fyrir sig hvernig við viljum innleiða þetta inn á okkar braut og vera brautryðjendur í hársnyrtiskólum á Íslandi í þessum efnum“.