Fara í efni

Um helmingur nemenda í verknámi og helmingur í bóknámi

Í þungum þönkum í líffræðitíma.
Í þungum þönkum í líffræðitíma.
Það lætur nærri að um helmingur nemenda Verkmenntaskólans sé í verknámi og helmingur í bóknámi. Hlutfallslega fleiri piltar eru í VMA en gengur og gerist í framhaldsskólunum þar sem áherslan er á bóknámið. Ástæðan fyrir þessu er sú að mun fleiri piltar en stúlkur eru á nokkrum verknámsbrautum.

Það lætur nærri að um helmingur nemenda Verkmenntaskólans sé í verknámi og helmingur í bóknámi.  Hlutfallslega fleiri piltar eru í VMA en gengur og gerist í framhaldsskólunum þar sem áherslan er á bóknámið. Ástæðan fyrir þessu er sú að mun fleiri piltar en stúlkur eru á nokkrum verknámsbrautum.

Þó svo að Verkmenntaskólinn hafi verið starfræktur á Eyrarlandsholti allar götur síðan 1984, í 29 ár, er ennþá töluvert útbreiddur misskilningur að þar sé fyrst og fremst verknám. Ef til vill má rekja þann misskilning að einhverju leyti til nafns skólans, sem vísar til verkmennta.

Þegar tölur eru skoðaðar kemur í ljós að nemendur á bóknámsbrautum og verknámsbrautum í skólanum skiptast því sem næst til helminga. Raunar er félagsfræðabraut fjölmennasta braut skólans með rösklega 200 nemendur núna á vorönn. Aðrar bóknámsbrautir í skólanum eru náttúrufræðibraut, viðskipta- og hagfræðibraut, listnámsbraut til stúdentsprófs og stúdentspróf að loknu starfsnámi.

Áfangakerfið gerir það að verkum að nemendur geta lokið stúdentsprófi af bóknámsbrautum á skemmri tíma en fjórum árum. Raunar færist það mjög í vöxt að nemendur ljúki stúdentsprófi á þremur og hálfu ári og jafnvel skemmri tíma. Til þess að nýta tímann betur er töluvert um það að dagnámsnemendur taki einnig einstaka fög í fjarnámi, til þess að fylla betur upp í stundaskrána. Einnig hefur svokölluð matsönn fyrir nemendur úr grunnskóla gert nemendum kleift að flýta námi sínu til stúdentsprófs.

Vélstjórnarnemar útskrifast einnig sem stúdentar og margir þeirra bæta við sig nokkrum fögum úr rafvirkjuninni og eiga þá einungis eftir sveinsprófið til þess að hafa lokið rafvirkjunni einnig.

Núna á vorönn eru 1219 nemendur skráðir í VMA en með fjarnámsnemum og starfsfólki skólans eru á átjánda hundrað manns innan veggja VMA, sem gerir skólann að fjölmennasta vinnustað á Akureyri.