Fara í efni

Tvíburabræður á leið til Hannover 96

Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir.
Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir.

Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir eru tvíburabræður frá Dalvík og hófu nám á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA sl. haust. Bráðefnilegir fótboltastrákar og eru nú á þeim þröskuldi sem marga unga fótboltamenn dreymir um, að æfa og spila hjá stórliði í útlöndum. Eftir áramót er stefnan tekin á Hannover í Þýskalandi þar sem þeir munu æfa og spila fótbolta hjá samnefndu félagi, Hannover 96, sem er um þessar mundir í 15. sæti þýsku Bundesligunnunnar.

Þeir bræður eru að vonum sterklíkir en engu að síður má auðveldlega þekkja þá í sundur. Þeir segjast báðir vera sóknarþenkjandi fótboltamenn, annar er framliggjandi miðjumaður en hinn kantmaður. Þeir byrjuðu kornungir að æfa fótbolta á Dalvík og fljótlega komu hæfileikarnir í ljós. Genatískir hæfileikar? Jú, það má færa rök fyrir því. Pabbi þeirra, Þórir Áskelsson, sjúkraþjálfari á Dalvík, var lengi í boltanum, uppalinn Þórsari og spilaði lengi með þeim. Og föðurbróðir þeirra, Halldór Áskelsson, var einn af bestu knattspyrnumönnum landsins á sínum tíma og spilaði með Þór og landsliðinu.

Þeir bræður hafa bæði spilað með Dalvíkingum og Þór Ak upp yngri flokkana, síðustu ár hafa þeir verið í herbúðum Þórsara og staðið sig mjög vel. Meðal annars urðu þeir bikarmeistarar N/A með Þór í þriðja flokki eftir sigur á nágrönnunum í KA.

Í síðasta mánuði var þeim bræðrum boðið að æfa með unglingaliði Hannover 96 í Þýskalandi og þar gafst Þjóðverjunum tækifæri til þess að vega og meta þá. Í framhaldinu hefur Hannover óskað eftir því að þeir bræður komi aftur út og það ætla þeir að gera í janúar. Þetta þýðir einfaldlega að forráðamönnum Hannover 96 leist það vel á það sem piltarnir frá Dalvík sýndu þegar þeir æfðu þar ytra í síðasta mánuði að þeir vilja fá þá aftur. Ljóst er að nú tekur alvaran við og foreldrar þeirra munu fara með þeim út.

„Við ákváðum að fara á íþrótta- og lýðheilsubraut í VMA vegna þess að við höfum mikinn áhuga á íþróttum og hreyfingu og okkur hefur líkað námið vel. Þetta er að okkar mati besta námið fyrir fótboltann. En við höfum ekki alveg gert upp við okkur hvernig við komum til með að haga náminu eftir þessa önn því við erum að flytja út til Hannover í janúar. Það kemur mögulega til greina að vera í fjarnámi úti eða þá að við förum í skóla í Hannover. Það kemur bara í ljós,“ segja þeir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar.

Móðurbróðir bræðranna, Heiðmar Felixson handboltamaður, býr í Hannover og það var ekki síst fyrir hans tilstilli að Bundesliguklúbbinn Hannover 96 fékk þá á reynslu í október sl. Þá æfðu þeir með U-17 og U-19 liðum félagsins. „Þetta er svakalega stórt félag. Aðalvöllurinn þeirra rúmar 60 þúsund áhorfendur og það er gríðarleg uppbygging í gangi á öllum sviðum. Öll umgjörð er mjög fagleg og mörgum klössum fyrir ofan það sem við eigum að venjast hér heima,“ segja þeir bræður og eru að vonum ánægðir með að hafa sýnt það mikið á þeim tíma sem þeir voru að æfa með Hannover að félagið vilji fá þá aftur út eftir áramót. Ef vel gengur má búast við að Hannover 96 vilji gera við þá samning. „Þetta er á allt öðru plani en við þekkjum hér heima. Hér borgum við æfingagjöld og æfum með okkar félagsliðum en þarna úti eru leikmenn valdir inn í unglingakademíur. Samkeppnin er mikil og ef maður slakar eitthvað á dettur maður einfaldlega út og það er alls ekki víst að maður komist aftur inn. Þjóðverjarnir hafa þá stefnu að hafa fyrst og fremst þýska leikmenn í sínum akademíum og því er mjög sérstakt að okkur skyldi vera boðið að koma þarna inn. Við erum einfaldlega mjög heppnir. Unglingaakademían hjá Hannover er með aðalþjálfara, markmannsþjálfara, varnarþjálfara, sóknarþjálfara, styrktarþjálfara og sjúkraþjálfara. Það er allt til staðar. Í fyrra lenti U-17 lið Hannover í þriðja sæti í Þýskalandi sem segir mikið um styrk þessarar akademíu.“

„Við erum vissulega að taka stórt skref en þetta verður allt auðveldara vegna þess að pabbi og mamma fara með okkur. Mamma, Hugrún Felixdóttir, er þýskukennari og þau bjuggu á sínum tíma í eitt ár í Þýskalandi. Það hjálpar klárlega. Sennilega verður erfiðast fyrir okkur að fara frá fjölskyldu og vinum okkar hér heima.“

Fyrirmynd bræðranna á fótboltavellinum er portúgalska goðið Ronaldo sem nú spilar sem kunnugt er með Real Madríd. Þeir fylgdust hins vegar fyrst með honum þegar hann spilaði með Man. United og síðan hafa þeir verið áhangendur þess félags. „Við héldum fyrst með Chelsea en síðan þegar við sáum Ronaldo hjá United fórum við að halda með þeim og pabbi var því mjög feginn, enda mikill United-maður!“