Fara í efni

Tveir VMA-nemar fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur á sveinsprófum

Helga Aðalbjörg með viðurkenningu sína.
Helga Aðalbjörg með viðurkenningu sína.

Tveir nemendur úr VMA fengu viðurkenningar á Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sl. laugardag fyrir góðan árangur á sveinsprófum. Annars vegar Almar Daði Björnsson í rafeindavirkjun og hins vegar Helga Aðalbjörg Bjarnadóttir í blikksmíði.

Nýsveinahátíðin var haldin í Tjarnarsal Ráhúss Reykjavíkur. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem jafnframt er verndari hátíðarinnar, flutti ávarp, það gerðu einnig Páll Magnússon, ráðuneytisstjóri, og Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Að þessu sinni fengu 23 nýsveinar viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á sveinsprófum og 14 nýsveinar fengu að auki sérstök verðlaun skóla og styrktaraðila tengd áframhaldandi námi þeirra. Hér má sjá skrá yfir nýsveinana sem fengu viðurkenningar í ár og síðustu ár.

Hjónin Jófríður Benediktsdóttir og Hafliði Már Aðalsteinsson voru heiðruð fyrir áratuga handverk og menntunarþátt þeirra.

Almar Daði Björnsson lauk sveinsprófi í rafeindavirkjun undir lok síðasta árs. Meistari hans er Ari Baldursson. Almar Daði starfar á tölvudeild Sjúkrahússins á Akureyri. Á þessari mynd er Almar Daði með Halldóri Þ. Haraldssyni, formanni Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík (lengst til vinstri), Ara Baldurssyni og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Helga Aðalbjörg Bjarnadóttir lauk sveinsprófi í blikksmíði um mitt síðasta ár. Meistari hennar er Benedikt Geir Ármannsson, sem rekur blikksmíðafyrirtækið Benni blikk á Akureyri. Helga Aðalbjörg hefur undanfarin þrjú ár starfað hjá því fyrirtæki. Á þessari mynd er Helga Aðalbjörg með Halldóri Þ. Haraldssyni, formanni Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, Benedikt Geir Ármannssyni og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Hér má sjá fleiri myndir frá Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.