Fara í efni

Tveir nemendur VMA á heimsleikum Special Olympics í Abu Dhabi

Keppni hefst í dag og lýkur nk. miðvikudag.
Keppni hefst í dag og lýkur nk. miðvikudag.

Tveir nemendur VMA eru nú staddir í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til þess að taka þar þátt í heimsleikum Special Olympics. Þetta eru Helena Ósk Padmavati Hilmarsdóttir, nemandi á íþrótta- og lýðheilsubraut, sem keppir í frjálsíþróttum, og Arndís Atladóttir, nemandi á starfsbraut, sem keppir í sundi. Keppni á leikunum hefst í dag og stendur hún fram á miðvikudag í næstu  viku. Auk þessara tveggja keppnisgreina eiga Íslendingar fulltrúa á heimsleikunum í badminton, boccia, keilu, knattspyrnu, golfi, fimleikum og lyftingum.

Óhætt er að segja að þátttaka í heimsleikunum sé ómetanleg upplifun fyrir Helenu og Arndísi og aðra keppendur á leikunum. Þegar allt er talið, keppendur, þjálfarar, fararstjórar og stuðningsmenn, fóru um eitt hundrað manns til Abu Dhabi og var lagt af stað út að morgni fimmtudagsins 7. mars sl.

Meðal þess sem hópurinn gerði dagana fyrir leikana var að njóta gestrisni íbúa Fujairah, vinabæjar Íslands á Special Olympics. Fyrsta daginn gafst tækifæri til þess að slaka vel á eftir langt og strangt ferðalag en síðan tók við skemmtileg dagskrá heimamanna fyrir gestina sem fólst í ýmsum leikjum, listum, handverki, matargerð og kynningu á sögulegum stöðum í Fujairah. Þá var farið í heimsókn í barnaskóla í Fujairah þar sem börnin höfðu æft margvísleg atriði til að sýna gestunum. Auk íslenska hópsins voru í Fujairah fulltrúar Noregs, Svíþjóðar, Færeyja, Nepals, Myanmar, Kongó, Lichteinstein, Macau,  Serendid og Moldovu.

Í engu hefur verið sparað til þess að gera heimsleika Special Olympics í Abu Dhabi eins veglega og mögulegt er. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem er heiðursgestur íslenska hópsins á leikunum, kom til Abu Dhabi í vikunni og tók þátt í setningarathöfn leikanna með hópnum í gær. Keppni hefst síðan í dag, sem fyrr segir.

Hægt er að fylgjast með leikunum og íslenska keppnishópnum á heimasíðu leikanna. Einnig eru nýjustu upplýsingar uppfærðar reglulega á fb-síðu Íþróttasambands fatlaðra og sömuleiðis verður hægt að fylgjast með gangi mála á Snapchat: ifsport.