Fara í efni

Tveir nemendur í hársnyrtiiðn í starfsþjálfun í Þrándheimi

Nemendur í hársnyrtiiðn í VMA.
Nemendur í hársnyrtiiðn í VMA.

Þessa dagana eru tveir nemar hársnyrtiiðn í VMA, Íris Birna Kristinsdóttir og Kristjana Lóa Sölvadóttir, í starfsþjálfun á hárgreiðslustofum í Þrándheimi í Noregi. Þær verða þar ytra í sex vikur.

Samstarf VMA við hárgreiðslustofur í Þrándheimi má segja að hafi hafist í framhaldi af samstarfsverkefnum sem skólinn vann með framhaldsskólanum Charlottenlund í Þrándheimi. Að baki liggur sú hugmynd að nemendur taki hluta af sínu starfsnámi utan landsteinanna og fái þannig tækifæri til þess að víkka út nám sitt og fá nýjar hugmyndir.

Nemendur sem vilja fara í starfsþjálfun erlendis geta sótt um Erasmus+ styrki og duga þeir yfirleitt fyrir ferðakostnaði; gistingu, fæði og öðru uppihaldi. Hildur Friðriksdóttir, verkefnastjóri erlendra samskipta í VMA, segir að þeir nemendur sem hafi áhuga á þessum möguleika geti leitað til sín og þá sé reynt að finna starfsþjálfun við hæfi fyrir þá nemendur. „Við höfum þá leitað til erlendra aðila sem við höfum verið með í einhvers konar samstarfi í gegnum tíðina og þeir aðstoða okkur við að finna vinnustaði og jafnvel gistingu fyrir nemana. Við gerum slíkt hið sama fyrir erlenda nema sem vilja koma hingað í starfsþjálfun,“ segir Hildur en auk nemendanna tveggja í Þrándheimi mun nemendi á matvælabraut VMA fara í sex vikna starfsþjálfun til Marseille í Frakklandi um miðjan september.

Í þessari viku eru kennararnir í hársnyrtiiðn í VMA, Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir, í Þrándheimi til þess að heimsækja hárgreiðslustofur þar og afla fleiri sambanda í því skyni að auka möguleika nemenda til þess að taka hluta sinnar starfsþjálfunar í Þrándheimi. Áður en Íris Birna og Kristjana Lóa fóru út hafði Dagný Hrund Björnsdóttir verið í starfsnámi í Þrándheimi.

Hildur Salína mun í þessari ferð til Noregs einnig fara til Osló og kynna sér þar starfsemi hárgreiðslustofunnar Floke sem hóf starfsemi í bænum Voss fyrir tíu árum síðan. Núna rekur fyrirtækið tólf hárgreiðslustofur í Noregi. Hildur Salína segir þetta fyrirtæki mjög áhugavert vegna áherslu þess á umhverfismál og notkun umhverfisvænna efna og hvernig það hafi hag starfsfólksins í huga í því skyni að það endist í starfi – sem hefur verið stórt vandamál í faginu bæði hér á landi og í mörgum öðrum löndum.

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar 28. ágúst sl. í kennslustund hjá nemendum í hársnyrtiiðn í VMA.