Fara í efni

Tveir nauðalíkir í bakstri

Tvíburarnir Gunnar Skírnir (t.v.) og Sæmundur.
Tvíburarnir Gunnar Skírnir (t.v.) og Sæmundur.

Gunnar Skírnir og Sæmundur Brynjólfssynir eru tvíburabræður frá Akureyri – á sextánda ári. Byrjuðu í VMA núna í haust og eru báðir í grunnnámi matvæla- og ferðamálagreina. Þeir segjast – í það minnsta sem stendur – hafa augastað á að læra framreiðslu – þjóninn.

Ekki verður annað sagt en að þeir bræður séu líkir. Segja þó að þeir séu ekki eineggja – nokkuð sem þeir rifja upp að líffræðikennari þeirra í grunnskóla hafi hreinlega ekki trúað og þeir þurft að sýna honum gögn sem sönnuðu þeirra mál!

Bræðurnir segja að það vefjist fyrir mörgum að þekkja þá í sundur en eins og annar þeirra sagði; „röddin greinir okkur stundum í sundur.“ Þeir segjast vera samrýmdir þó stundum hafi þeir rifist smá þegar þeir voru yngri. Og áhugamálin eru og hafa verið svipuð hjá þeim. Sem börn og unglingar voru þeir mikið í fimleikum en æfa ekki lengur.

Vegna þess hversu líkir bræðurnir eru segjast þeir aðspurðir örugglega geta siglt undir fölsku flaggi – m.a. með því að gefa upp rangt nafn – en þeir hafi þó ekki látið á það reyna!

Það var mikið um að vera þegar litið var inn á matvælabrautina á dögunum. Þeir bræður voru í hópi sem þennan dag fékk það verkefni að baka möffins og gerbollur. Eins og vera ber er margt sem þarf að læra í eldamennsku og bakstri og einnig fá nemendur þjálfun í framreiðslu.