Fara í efni

Tvær tillögur frá Þórdunu samþykktar á SÍF-þingi

Önnur tillagna Þórdunu tengist Söngkeppninni.
Önnur tillagna Þórdunu tengist Söngkeppninni.

Fimm stjórnarmenn Þórdunu – nemendafélags VMA sátu um liðna helgi ársþing SÍF – Sambands íslenskra framhaldsskóla og lögðu þar fram tvær tillögur sem báðar hlutu brautargengi. Önnur tillagan tengdist Söngkeppni framhaldsskólanna og hin tengdist verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli.

Fulltrúar Þórdunu lögðu þá tillögu fyrir SÍF-þingið um helgina að sambandið myndi vinna að því að Söngkeppni framhaldskólanna verði flutt á ný norður yfir heiðar og hún verði haldin á Akureyri næsta vor. Tillagan var samþykkt á þinginu og var stjórn SÍF falið að fylgja málinu eftir. Það á síðan eftir að koma í ljós hver niðurstaða málsins verður.

Í hinni tillögunni sem þingfulltrúar frá Þórdunu lögðu fram og var samþykkt er SÍF falið að vinna að því að verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli verði endurskoðað með það að leiðarljósi að taka í burtu boð og bönn úr verkefninu. Þannig væri stuðlað að því að framhaldsskólanemendur hafi meira val en nú er.

Stefán Jón Pétursson, formaður Þórdunu, segir að vissulega hafi skapast töluverð umræða um báðar tillögurnar og skoðanir hafi verið skiptar. Hins vegar hafi meirihluti þingfulltrúa stutt báðar tillögurnar og stjórn SÍF, sem var kjörin á þinginu, hafi verið falið að fylgja þeim eftir.

Trúlega er það svo að mikill meirihluti nemenda veit ekki fyrir hvað Samband íslenskra framhaldsskóla stendur. Því er rétt að nefna að framhaldsskólanemendur geta leitað til sambandsins ef þeim finnst vera brotið á hagsmunum sínum innan framhaldskólanna og lætur SÍF þá til sín taka.  Nánari upplýsingar um SÍF er að finna á heimasíðu sambandins.