Fara í efni

Tónlistarmaður? En við hvað vinnur þú?

Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður.
Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður.

Í dag, þriðjudaginn 16. mars, kl. 17:00 til 17:40 verður tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson með fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar í Listasafninu, en að þeim standa, auk Listasafnsins, VMA, Gilfélagið og Myndlistarfélagið á Akureyri. Fyrirlestur Magna hefur þá skemmtilegu yfirskrift „ .... tónlistarmaður? En við hvað vinnur þú?“

Það þarf ekki að hafa mörg orð um Magna Ásgeirsson, svo vel er hann þekktur. Hann er frá Borgarfirði eystra og hefur ávallt ríka tengingu við æskustöðvarnar, m.a. með því að koma að, ásamt fleirum, skipulagningu og framkvæmd tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar þar eystra. Í mörg undanfarin ár hefur Magni búið á Akureyri.

Í fyrirlestrinum í dag fer Magni á hundavaði yfir feril sinn í tónlistinni – sem poppari, rokkari, tónleikahaldari og kennari. Hann fjallar einnig um hvað það þýði að ætla sér að vinna sem tónlistarmaður á Íslandi.

Inn á milli atriða grípur Magni í gítarinn og spilar og syngur nokkur þekkt tóndæmi frá ferlinum.

Ókeypis aðgangur er að fyrirlestrinum.