Fara í efni

Tónlist með ljósmyndaívafi

Eyþór Ingi Jónsson, tónlistarmaður og ljósmyndari.
Eyþór Ingi Jónsson, tónlistarmaður og ljósmyndari.

Í dag, þriðjudaginn 18. október kl. 17-17.40, heldur Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju, þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri sem ber yfirskriftina  Canon og Canon. Í fyrirlestrinum fjallar Eyþór Ingi um tónlistarferilinn og ljósmyndun, sem hann hefur stundað í auknum mæli undanfarin ár, samhliða tónlistarsköpuninni.

Eyþór Ingi lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1998. Á árunum 1999-2007 nam hann við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð, fyrst við kirkjutónlistardeild og síðar við konsertorganistadeild. Eyþór kennir orgelspuna, orgelleik, kórstjórn og orgelfræði við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Hann heldur jafnframt reglulega námskeið og fyrirlestra. Hann hefur haldið hátt í 100 einleikstónleika á Íslandi og erlendis. Einnig hefur hann leikið með fjölda innlendra og erlendra tónlistarmanna. 

Eyþór starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og stjórnandi kammerkórsins Hymnodiu. Til fjölda ára stjórnaði hann einnig Kór Akureyrarkirkju. Hann var bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012.

Auk tónlistarstarfa tekur Eyþór mikið af fjölbreyttum myndum út í náttúrunni. Hann hefur haldið þrjár einkasýningar og tekið þátt í nokkrum samsýningum.

Sem fyrr eru þriðjudagsfyrirlestrarnir samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og MA. Aðgangur er ókeypis.