Fara í efni

Tónelskur vélstjórnarnemi á fullu í félagslífinu

Valur Freyr Sveinsson.
Valur Freyr Sveinsson.

Valur Freyr Sveinsson er nemandi í vélstjórn í VMA og tónlistaráhugamaður. Hann er einnig eignastjóri í stjórn nemendafélagsins Þórdunu og í forsvari fyrir Þrym – tónlistarfélag VMA. Síðstliðið vor efndi Þrymur til tónlistarkvölds í Gryfjunni og þriðjudaginn 3. desember verður efnt til jólatónlistarkvölds í Gryfjunni þar sem, eins og nafnið gefur til kynna, jólatónlist verður í öndvegi. Hljómsveitin sem mun spila á tónlistarkvöldinu hefur þegar verið mynduð og er hún byrjuð að stilla saman strengi. Hún vill fá til liðs við sig söngvara sem hafa þá hugmyndir um jólalög sem þeir vilja flytja á tónlistarkvöldinu. Búið er að auglýsa eftir söngvurum – sjá hér.

Valur Freyr, sem spilar á gítar í VMA-bandinu, lítur björtum augum til jólatónleikanna í Gryfjunni og vill hvetja söngvara sem hafa áhuga á að vera með að sækja um þátttöku sem fyrst.

Jólatónleikarnir verða einskonar upphitun fyrir Sturtuhausinn því ætlunin er að þessi sama hljómsveit spili undir á Sturtuhausnum – söngkeppni VMA – eftir áramót. Einnig er annað tónlistarkvöld á dagskránni á síðari hluta vorannar, ekki ósvipað og tónlistarkvöldið sl. vor.

Valur Freyr er Svarfdælingur, fæddur 1998, og hóf nám í VMA haustið 2014. Hann fór í grunndeild málmiðnaðar síðan áfram í vélstjórn. „Ég fór í grunndeildina á sínum tíma án þess þó að vita nákvæmlega hvað mig langaði til þess að gera í framhaldinu. Það eina sem ég var með á hreinu var áhugi minn á bílum og vélum og ég var með bifvélavirkjun í huga. En þegar ég fór að skoða málið betur taldi ég að starfsmöguleikarnir væru meiri með því að fara í vélstjórn. Þetta er krefjandi nám en mjög áhugavert. Samkvæmt uppsetningu námsins er ég kominn á fjórða ár af fimm en núna er ég ekki í fullu námi í skólanum enda er ég einnig að vinna í Slippnum sem vélvirkjanemi. Ég vann einnig með skólanum síðasta vetur og var í fullu starfi sl. sumar. Ég hef þegar lokið vélvirkjanáminu sem hluta af vélstjórnarnáminu og þegar ég hef lokið smiðjutímanum get ég tekið sveinspróf í vélvirkjun og það hyggst ég gera og í framhaldinu er planið að ljúka vélstjórnarnáminu líka,“ segir Valur Freyr.

Sem fyrr segir er Valur tónlistaráhugamaður og spilar á gítar – og einnig hefur hann reyndar gripið í trommurnar. Og ekki nóg með það, hann syngur fyrsta tenór í Karlakór Eyjafjarðar. Hann kann söngnum vel og segir gaman að taka þátt í félagsskap sem þessum, þó svo að flestir kórfélagarnir séu töluvert mikið eldri. „Við erum fjórir strákar í kórnum á mínum aldri, þannig að þetta eru ekki bara gamlir karlar,“ segir Valur og hlær.