Fara í efni

Tóku þátt í Leiktu betur í Borgarleikhúsinu

Leiktu betur var í Borgarleikhúsinu.
Leiktu betur var í Borgarleikhúsinu.

Það er mikið á sig lagt fyrir frægðina, eins og allir vita. Síðdegis í gær lagði átta manna hópur af stað frá VMA suður til Reykjavíkur í þeim tilgangi að taka þátt í leiklistarkeppni framhaldsskólanna, „Leiktu betur“. Liðsmenn VMA stigu á svið í Borgarleikhúsinu í gærkvöld og síðan var ekið aftur heim á leið að keppninni lokinni. Þreyttir en ánægðir ferðalangar komu heim til Akureyrar kl. 05 í morgun.

Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri, tók að sér að keyra VMA-hópinn suður en hann samanstóð af fjórum aðalmönnum og tveimur varamönnum og sjöundi maður liðsins var síðan þjálfari/liðsstjóri.

Um er að ræða leikspuna þar sem nemendur spreyta sig á ákveðnu viðfangsefni og og reynir þetta form  verulega á mannskapinn. VMA tók í fyrsta skipti þátt í „Leiktu betur“ í fyrra og endaði þá í einu af efstu sætunum. Það tókst ekki í ár en engu að síður segir Pétur að frammistaðan hafi verið hreint prýðileg og nemendum til sóma. „Þetta er mjög krefjandi en krakkarnir stóðu sig alveg gríðarlega vel,“ sagði Pétur.

Átta skólar tóku þátt að þessu sinni. Menntaskólinn við Hamrahlíð skaraði framúr og sigraði keppnina en Kvennaskólinn í Reykjavík lenti í öðru sæti.