Fara í efni

Tilraun með breytta Gryfju

Ætlunin er að setja upp ýmis leiktæki í Gryfjunni.
Ætlunin er að setja upp ýmis leiktæki í Gryfjunni.

Í dag blöstu við nemendum og starfsfólki nokkrar breytingar hér innanhúss í VMA. Búið var að færa til sófa í Gryfjunni og taka þar í burtu borð og stóla og færa hluta þeirra inn á rýmið til hliðar og gegnt M01. Þessar breytingar eru gerðar að frumkvæði nemendafélagsins Þórdunu í þeim tilgangi að skapa rými í Gryfjunni fyrir ýmiskonar leiktæki sem unnið er að því að fá og þess er vænst að komi áður en langt um líður. Þar má nefna Pool-borð, borðtennisborð o.fl.

Hér er um tilraunaverkefni að ræða og staðan verður metin þegar reynsla er komin á þetta en Sara Dögg Sigmundsdóttir, varaformaður Þórdunu, segir að strax í löngufrímínútunum í dag hafi komið í ljós að nemendur nýttu vel borðin inn í D-álmu, sem hafi einmitt verið vonast til.

Sara segir hugmyndina að hafa alltaf tónlist í Gryfjunni og þangað geti krakkar alltaf átt sitt athvarf til þess að nýta leiktækin eða setjast niður og spjalla. Bókasafnið sé ekki rétti staðurinn til þess, enda sé það fyrir nemendur til þess að nýta lesaðstöðuna í ró og næði.