Tilbrigði við þakklæti
Í tengslum við Gulan september, þar sem sjónum var beint að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum, var komið upp svonefndum þakklætisvegg í VMA þar sem nemendum og starfsfólki hefur gefist kostur á að skrifa á miða eitt og annað sem er þeim efst í huga að þakka fyrir. Fjölmargir hafa skrifað á þessa þakklætismiða og eins og vera ber er fjölmargt og ólíkt sem upp í hugann kemur þegar hugsað er til hugtaksins þakklæti.
En hvernig tengist þakklæti og geðrækt? Sannað er að þakklæti bætir líðan og dregur úr streitu, það sem hver og einn er þakklátur fyrir dregur úr kvíða og depurð. Þakklæti hjálpar fólki að beina athyglinni frá neikvæðum hugsunum yfir á það sem er jákvætt eða gefandi í lífinu. Þakklæti eykur traust milli fólks, samkennd og samheldni og sannað þykir að það hefur jákvæð áhrif á líkamlega heilsu fólks.
Það er gaman að renna augum yfir miðana á þakklætisveggnum í VMA enda þakklætisefnin af ýmsum toga. Á mörgum miðanna eru nöfn fólks sem ástæða þykir til að þakka fyrir. Þakkað er fyrir góða heilsu, fjölskylduna og lífið sjálft og jafnvel gott kaffi á Bláu könnunni!