Fara í efni

Þyrftu að vera fleiri tímar í sólarhringnum

Anna Birta Þórðardóttir, formaður Þórdunu.
Anna Birta Þórðardóttir, formaður Þórdunu.

Anna Birta Þórðardóttir er með mörg járn í eldinum. Hún stundar nám á tveimur brautum í VMA, hársnyrtiiðn og félags- og hugvísindabraut. Auk þess er hún á fullu í félagslífinu í VMA og í launaðri vinnu utan skólans, á hár- og snyrtistofunni Mods á Glerártorgi og einnig hjá pizzafyrirtækinu Sprettinum. Hún segist vera týpan sem þurfi alltaf að hafa í mörgu að snúast en viðurkennir að stundum þyrfti hún fleiri tíma í sólarhringinn.

Anna Birta er fædd og uppalinn á Húsavík en á ættir að rekja til Raufarhafnar. Hún flutti til Akureyrar 2017, tók 10. bekkinn í Glerárskóla og hóf nám í VMA árið eftir. Hún var alltaf ákveðin í því að fara í hársnyrtiiðn en komst ekki strax inn í námið. Hún byrjaði því á því að fara í ýmsa bóklega áfanga, enda sá hún fyrir sér að taka viðbótarnám til stúdentsprófs með hársnyrtiiðninni. Smám saman tóku málin þá stefnu að Anna Birta gæti einnig lokið stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut skólans. Námið í hársnyrtiiðninni hóf hún haustið 2020 og er því núna á fjórðu önn af sex í náminu. Hún segist stefna að því að ljúka bæði hársnyrtiiðninni og stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut vorið 2023, að rúmu ári liðnu. „Ég held að það opni mér ýmsa möguleika að ljúka námi af báðum þessum brautum,“ segir Anna Birta og bætir við að hún sé ákveðin í því að taka meistaraskólann í hársnyrtiiðninni í framhaldi af náminu í VMA.

Anna Birta var varaformaður nemendafélagsins Þórdunu í byrjun skólaársins en hefur verið formaður síðan í nóvember sl. Þó svo að covid hafi dregið máttinn úr félagslífi nemenda hefur engu að síður verið eitt og annað að sýsla fyrir krakkana í stjórn nemendafélagsins. Eftir að öllum covid-takmörkunum var aflétt sl. föstudag horfa nemendur loks til þess að geta haldið viðburði án takmarkana. Langþráð árshátíð nemenda er nú komin á dagskrá, hún verður 1. apríl nk. (ekki aprílgabb!!) í Íþróttahöllinni og nú er stjórn Þórdunu á fullu við að bóka listamenn sem koma fram. Nánar um árshátíðina síðar hér á heimasíðunni.

Og eins og framangreint sé ekki yfirdrifið nóg fyrir Önnu Birtu, þá er hún á fullu þessa dagana við æfingar á Lísu í Undralandi í uppfærslu Leikfélags VMA sem verður frumsýnd laugardagskvöldið 5. mars nk. Ekki nema fimm dagar í frumsýningu og leikhúsið er smám saman að taka á sig mynd í Gryfjunni. Um að gera að drífa sig í því að panta miða á sýninguna – sjá hér.

Anna Birta hefur hannað hárgreiðsluna í Lísu og hún stýrir hárgreiðslunni fyrir æfingar og sýningar. Það þýðir að hún og hennar fólk mætir um tveimur tímum fyrir æfingar og sýningar til þess að fara höndum um hár leikaranna í sýningunni. Og til viðbótar er Anna Birta einnig á leiksviðinu, hún fer með hlutverk Syfjumúsarinnar í Lísu.

Anna Birta er ekki ókunn leiklistinni í VMA. Hún hefur áður verið í hárgreiðsluteyminu við uppfærslur Leikfélags VMA og einnig hefur hún tvívegis verið á sviðinu, árið 2019 sem dansmey í Bugsý Malón og Chacha í Grís sl. vetur.

„Þetta er auðvitað tímafrekt en ég get ekki sleppt þessu. Það er svo ótrúlega gaman að taka þátt í svona vinnu, mikil reynsla og dýrmætar minningar,“ segir Anna Birta og bætir við að til þess að hlutirnir gangi upp þurfi hún að vera skipulögð og nýta tímann vel. „Ég viðurkenni alveg að erfiðast er að sinna bæði náminu og félagslífinu. En ég tek með mér námsbækurnar á æfingar og í pásum les ég eða skrifa ritgerðir.“

Anna Birta segist njóta þess að taka þátt í félagslífinu og henni sé ekki framandi að vera í eldlínunni, hún hafi verið í nemendaráðum á Húsavík og þegar hún var í tíunda bekk í Glerárskóla. „Það er einhvern veginn þannig að ég á erfitt með að hafa ekkert að gera. En stundum þarf ég fleiri tíma í sólarhringinn,“ segir Anna Birta og brosir breitt.