Fara í efni

Þrír bræður kenna í VMA á vorönn

Bræður í kaffistofunni. F.v. Elías, Adam og Hörður
Bræður í kaffistofunni. F.v. Elías, Adam og Hörður

Það er ekki á hverjum degi sem þrír bræður kenna á sama tíma við sama skólann en það mun gerast á þessari nýhöfnu önn í VMA. Þetta eru þeir Adam, Hörður og Elías Óskarssynir.

Adam Ásgeir Óskarsson er í hópi þeirra kennara við skólann sem hafa lengsta starfsreynslu. Hann hefur komið víða við sögu í kennslu og lagt ómæld lóð á vogarskálarnar og verið einn af frumkvöðlum í tölvu- og upplýsingamálum skólans. Að þeim málum vann hann á sínum tíma ötullega með Hauki Ágústssyni sem fékk einmitt á nýársdag riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til skóla- og fjarkennslumála. Núna kennir Adam stærðfræði og rafiðngreinar við VMA.

Hörður Óskarsson er brautarstjóri málmiðnbrautar. Hann hefur kennt við skólann í fjórtán ár.

Þriðji bróðinn er Elías Örn Óskarsson pípulagningameistari sem hefur rekið pípulagningafyrirtækið Miðstöð ehf. á Akureyri. Á þessari önn munn hann kenna tólf manna hópi pípulagnanema.

Pípulagnir eru kenndar annað slagið í VMA, þegar nægur fjöldi nemenda skráir sig, en nauðsynlegur undanfari er grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina. Síðasti hópur pípulagningamanna útskrifaðist frá VMA árið 2011.
Meðalnámstími í pípulögnum er 4 ár, samtals 4 annir í skóla og 96 vikna vinnustaðanám.
Vinnustaðanámið er skipulagt sem 96 vikna starfsnám á námssamningi – sjá nánar hér. Þessi önn er sú þriðja í námi þessara tólf pípulagnanema.